Eins og skemmtilegt kvöldkaffiboð

Bill og Hillary Clinton komu í gær í heimsókn til …
Bill og Hillary Clinton komu í gær í heimsókn til Ástríðar Thorarensen og Davíðs Oddssonar. mbl.is/Þorkell

„Þetta var eins og huggulegt og skemmtilegt kvöldkaffiboð; sagðar sögur og brandarar milli kaffisopanna," sagði Davíð Oddsson forsætisráðherra við fréttamenn eftir heimsókn Clinton-hjónanna til Davíðs og eiginkonu hans Ástríðar Thorarensen á heimili þeirra í Skerjafirðinum í gær.

Davíð ræddi við fréttamenn, eftir heimsóknina, sem stóð yfir í nær klukkutíma, lengur en upphaflega var áformað.

„Þetta var svo skemmtilegt og margt að ræða," sagði Davíð spurður um heimsóknina. "Það var farið yfir gamla samvinnu, svo var farið yfir amerísk stjórnmál og eins stöðuna í Írak og Afganistan." Sagði hann að það hefði verið afskaplega gaman að ræða við Clinton-hjónin; því þau hefðu lifandi þekkingu á helstu málum.

Aðspurður sagði Davíð að varnarmálin hefðu þó ekki verið rædd. Það hefði ekki endilega verið viðeigandi. "Mér finnst viðeigandi að ræða það við núverandi stjórnvöld en kannski ekki aðra."

Bush vinni

Bandarísku forsetakosningarnar voru m.a. ræddar í heimsókninni og kvaðst Davíð hafa sagt við Clinton hjónin að hann héldi að George W. Bush Bandaríkjaforseti myndi vinna kosningarnar. "Ég er þeirrar skoðunar og sagði þeim hjónum það að ég héldi að Bush myndi hafa það. Meðal annars vegna þess að sá Bush sem nú er að keppa er ekki með keppinaut á móti sér, sem hafði þann sama sjarma, eins og sá sem gamli Bush var að keppa við þ.e. Clinton sjálfan."

Davíð bætti því við að hann þekkti John Kerry, keppinaut George W. Bush, ekkert en sér fyndist þó sem hann hefði ekki sama sjarma, líf og áhrif og Clinton. Davíð sagði ennfremur að Clinton-hjónin hefðu talað mjög hlýlega um Kerry.

Fimm dögum á undan áætlun

Skömmu áður en Clinton-hjónin kvöddu Davíð og Ástríði gengu þau út á verönd ásamt íslensku forsætisráðherrahjónunum. Sagði Davíð við það tækifæri að það væri afar ánægjulegt að hafa fengið vini sína, Bill og Hillary, í heimsókn á heimili þeirra Ástríðar. „Við áttum saman afslappaða stund og nutum samverunnar mjög. Ég held að eftir þennan fund sé ég fjórum eða fimm dögum á undan áætlun hvað það varðar að ná heilsu á ný."

Davíð var nánar spurður út í heilsu sína, þegar Clinton-hjónin voru farin. Sagði hann þá að sér fyndist sem það gengi vel einn daginn, en næsta dag þyrfti hann að hvílast eftir minnsta átak. „Mér finnst það ganga vel einn daginn en daginn eftir finnst mér það ekkert ganga; að ég sé alveg eins og auli og geti ekkert, sé alltaf kominn upp í rúm við minnsta átak, svo segir mamma, sem sér mig með viku millibili að ég hafi heilmikið lagast." Aðspurður hvort hann hygðist reyna að koma til starfa fyrir 15. september, þ.e. áður en hann tæki við embætti utanríkisráðherra sagði hann: "Já, mér finnst ég eigi að gera það, þannig að ég ætla að gera það. Þótt ég verði kannski ekki á fullri ferð verður mér örugglega fyrirgefið því ég hef stundum verið á of mikilli ferð. Ég á kannski pínulítið inni."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert