Errósýning, spjall, áritanir og pylsa á Bæjarins bestu

Clinton fær sér pylsu á Bæjarins bestu.
Clinton fær sér pylsu á Bæjarins bestu. mbl.is/ÞÖK

Miðbær Reykjavíkur fór hreinlega á annan endann uppúr hádegi í gær þegar Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, fór þar um. Clinton keypti sér íslenskt handverk og bækur um Ísland, bragðaði íslenska pylsu og kynnti sér verk Errós á Listasafni Reykjavíkur. Clinton gekk afslappaður um bæinn í gallabuxum og peysu og tók vel í það að árita bækur og ræða við vegfarendur.

Fyrriparti dagsins varði Clinton á Þingvöllum. Um hálftvö lagði hann svo upp í rúmrar klukkustundar miðbæjarrölt. Fyrsti viðkomustaður forsetans fyrrverandi var Austurvöllur. Þar vakti ljósmyndasýningin Íslendingar, með myndum eftir Sigurgeir Sigurjónsson og texta eftir Unni Jökulsdóttur, athygli Clintons ásamt styttunni af Jóni Sigurðssyni.

Frá Austurvelli hélt Clinton í Pennann Eymundsson í Austurstræti og varði töluverðum tíma inni í versluninni, sem fljótlega fylltist af fólki. Gekk Clinton út með tvær ljósmyndabækur með myndum eftir Sigurgeir Sigurjónsson, annars vegar bókina Íslendingar, en myndirnar sem prýða Austurvöll koma úr þeirri bók, og hins vegar Lost in Iceland.

Öll Clinton-fjölskyldan komið í búðina

"Hann var hérna lengi að skoða túristabækur og keypti svo þessar tvær bækur," segir Þórunn Inga Sigurðardóttir, verslunarstjóri Pennans-Eymundssonar. Hún segist hafa verið hissa þegar Clinton kom inn í búðina. "Allt í einu var hér hópur af jakkaklæddum mönnum standandi eins og þvörur úti um allan pallinn. Svo sáum við að Clinton var kominn, en hann var sjálfur mjög alþýðlega klæddur. Það var hersing á eftir honum af fólki, bæði sem kom hingað inn og beið fyrir utan eftir honum."

Fjöldi manns fylgdi Clinton um miðbæinn, bandarískir öryggisverðir, aðstoðarfólk, íslenskir sérsveitarmenn og lögreglumenn. Clinton virtist mun afslappaðri en fylgdarliðið, áritaði fúslega ævisögu sína sem sumir vegfarendur höfðu meðferðis og ræddi við þá sem gáfu sig á tal við hann. Vökul augu þrautþjálfaðra öryggisvarða fylgdu hverju skrefi hans eftir í miðbænum.

Bæði Bill og Hillary eignuðust íslenskt handverk

Að loknum bókarkaupum gekk Clinton eftir Austurstræti og inn á Ingólfstorg. Þaðan tók hann strikið upp á Vesturgötu þar sem hann leit við í versluninni Kirsuberjatrénu. Ólöf Erna Bjarnadóttir keramikhönnuður og ein þeirra tíu kvenna sem selja verk í Kirsuberjatrénu stóð vaktina í gær þegar Clinton vatt sér óvænt inn. Hún segir konu, líklega úr fylgdarliði forsetans fyrrverandi, hafa komið fyrst inn í búðina og litið í kringum sig eins og til að athuga hvort allt væri með felldu. Stuttu síðar gekk Clinton sjálfur inn, Ólöfu Erlu að óvörum.

"Þessi heimsókn kom mjög á óvart. Ég bara kiknaði í hnjánum þegar hann kom inn. Ég stóð og var að spjalla við mann sem var hérna í búðinni. Svo sé ég að það kemur hérna kona sem kíkir um búðina og brosir svo til mín. Nokkru síðar gengur Clinton inn."

Ólöf segist hafa reynt að segja Clinton frá því hvers konar varningur væri á boðstólum hjá Kirsuberjatrénu. "Svo bara gekk hann um búðina og skoðaði. Hann varð fljótlega hrifinn af skálum úr pappamassa eftir Valdísi Harrysdóttur og sagði að þær væru mjög fallegar. Svo raðaði hann saman fimm skálum og sagðist ætla að fá þær og bað mig að pakka þeim inn."

Bill Clinton var ekki einn um að fá varning eftir íslenskar listakonur úr Kirsuberjatrénu í gær. Forsætisráðuneytið festi í gærmorgun kaup á handtösku úr hlýraroði, hannaðri af Arndísi Jóhannsdóttur, sem gjöf handa Hillary Clinton.

Lögreglan í Reykjavík var með minni viðbúnað vegna heimsóknar Clintons en gengur og gerist þegar t.d. leiðtogar þjóða koma í opinberar heimsóknir. Heimsókn Clintons var óopinber og dagskráin nokkuð frjáls. Að sögn Árna Friðleifssonar varðstjóra í umferðardeild lögreglunnar í Reykjavík fylgdu tveir bílar og þrjú mótorhjól Clinton-hjónunum á ferðum þeirra í gær. Um tíu lögregluþjónar voru í vinnu við umferðarfylgdina í gær. Að auki fylgdu sérsveitarmenn hjónunum eftir, en sú öryggisgæsla er á hendi ríkislögreglustjóra.

Clinton kunnugur verkum Errós

Ugglaust hafa íslensku listmunirnir í Kirsuberjatrénu komið Clinton á bragðið því hann sveigði óvænt inn um dyrnar á Listasafni Reykjavíkur í Hafnarstrætinu að loknu búðarölti. "Þetta sló mig svolítið út af laginu. Hann kom bara óvænt," segir Sóley Lilja Brynjarsdóttir sem var á vakt í afgreiðslunni hjá Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsinu þegar Bill Clinton bar þar að garði í gær. Hún segir heimsóknina hafa verið sérstaka upplifun.

Forstöðumaður safnsins, Eiríkur Þorláksson, gekk með honum um safnið. Hann segir Clinton hafa sérstaklega óskað eftir því að fá að skoða verk Errós.

"Þetta var af hans hálfu jafnt sem okkar algerlega óundirbúið. Honum bara datt í hug að kíkja inn. Það hitti þannig á að ég var við og tók á móti honum og sagði honum hvaða sýningar voru í húsinu. Hann hafði mikinn áhuga á Goya-sýningunni en þegar hann heyrði að það væri sýning á verkum Errós óskaði hann sérstaklega eftir að fá að sjá hana. Hann hafði greinilega einhvern tímann kynnst verkum Errós," segir Eiríkur sem leysti Clinton út með bók um Erró, en nú stendur yfir í safninu sýningin "Fagurfræði og stjórnmál" með verkum eftir Erró.

Þorlákur segir Clinton afar viðkunnanlegan. Hann hafi verið hinn rólegasti á göngu sinni um safnið þrátt fyrir að aðstoðarmenn hafi hnippt í hann öðru hverju til að reka á eftir honum.

Kallaði á Clinton og bauð honum pylsu með sinnepi

Frá Listasafninu lá leið Clintons austur eftir Tryggvagötu. Mósaíkmyndin á Tollhúsinu vakti athygli hans, ekki síður en pylsurnar á Bæjarins bestu. María Einarsdóttir pylsusali lét sér ekki bregða við að sjá Bill Clinton, enda hefur hún selt mörgum stórstjörnum pylsur í gegnum tíðina. Hún segir Clinton þó líklega vera þann frægasta. Þegar Clinton gekk ásamt fjölmennu fylgiliði framhjá Bæjarins bestu í Tryggvagötu leit út fyrir að hann myndi aðeins ganga hjá en þegar hann leit til Maríu og veifaði ákvað hún að láta á það reyna að kalla til hans.

"Ég kallaði á hann hvort hann vildi ekki prófa "heimsins bestu pylsur". Hann hvarf fyrir hornið. Svo varð mikið fjaðrafok og allir stukku til baka. Hann heyrði ábyggilega þegar ég kallaði og vildi endilega prófa. Þá sneri allt liðið við." Að sögn Maríu var Clinton sérlega almennilegur viðskiptavinur, brosti og heilsaði með handabandi. "Ég sagði að það væri í boði hússins þegar hann ætlaði að fara að borga. Hann vildi bara með sinnepi þegar upp var staðið." Og Clinton var ánægður með pylsuna að sögn Maríu. "Hann sagði að þetta hefði verið góð pylsa. Svo bara þakkaði hann bara kærlega fyrir og kvaddi mig með handabandi og fór."

Augljóst var af viðbrögðum fylgdarliðs að Clinton kom þeim á óvart með göngu sinni um miðbæinn í góðviðrinu. Að sögn Árna Friðleifssonar gekk gönguferðin vel, þótt hún hafi ekki verið nákvæmlega skipulögð fyrirfram.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert