Bæjarstjórar í hjólreiðatúr

Bæjarstjórarnir í hjólreiðatúrnum í dag.
Bæjarstjórarnir í hjólreiðatúrnum í dag.

Bæjarstjórar á höfuðborgarsvæðinu fóru saman í hjólreiðatúr í dag ásamt borgarstjóra en leið þeirra lá frá Þinghóli í Kópavogi í gegnum Fossvogsdalinn áleiðs í Elliðaárdal.

Áður en lagt var af stað afhjúpaði Sigurður Geirdal, bæjarstjóri í Kópavogi, nýtt skilti með leiðakorti fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Þórólfur Árnason borgarstjóri afhjúpaði sams konar skilti á leiðarenda í Elliðaárdal en fyrr um daginn hafði Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, afhjúpað slíkt skilti milli Glitvangs og Reykjavíkurvegar.

Fram kemur í tilkynningu, að bæjarstjórunum og borgarstjóra hafi verið ætlaður klukkutími til að komast frá Þinghól í Elliðaárdal en mannskapurinn virtist í ágætu formi því komið var á leiðarenda eftir rúmlega hálftíma hjólreiðar. Bauð borgarstjóri upp á heitt kakó og kleinur áður en skiltið með leiðakortinu var afhjúpað.

Þátttakendur í hjólreiðaferðinni voru þau Ásdís Halla Bragadóttir, bæjarstjóri í Garðabæ, Gunnar Valur Gíslason, bæjarstjóri Álftaness, Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, Sigurður Geirdal, bæjarstjóri í Kópavogi, og Þórólfur Árnason, borgarstjóri í Reykjavík.

Skiltin sem um ræðir eru með leiðakorti af viðkomandi svæði öðrum megin og yfirlitskorti yfir höfuðbogarsvæðið hinum megin. Til að auðvelda göngu- og hjólreiðafólki að rata er vísað á staðsetningu annarra skilta. Skiltin eru öll með krotfilmu til varnar skemmdum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert