Óvíða ef nokkurs staðar hefur neinni þjóð betur tekist að standa vörð um og varðveita eigið tungumál en Íslendingum. Þetta segir Michael T. Corgan, prófessor við Boston-háskóla í Bandaríkjunum, í samtali við Morgunblaðið.
Corgan hefur kynnt sér sérstaklega stöðu og varðveislu tungumáls okkar með samanburði við fleiri þjóðir. Corgan gerði grein fyrir niðurstöðum sínum í erindi sem hann flutti í málstofu um tungumál og smáríki á ráðstefnu um stöðu smáríkja við Háskóla Íslands. Corgan fjallaði um tungumálið sem þátt í sjálfsvitund þjóðar og stöðu íslenskunnar andspænis áhrifum hnattvæðingarinnar.
Við rannsóknir sínar athugaði Corgan einstök dæmi og skoðaði sérstaklega stöðu mála í Lúxemborg til samanburðar, sem einnig er smáríki með um 400 þúsund íbúa og tungumál sem sprottið er upp úr tungumálum nágrannaþjóða.
"Það eru því ýmsar hliðstæður milli þessara tveggja ríkja. Lúxemborgarar fóru hins vegar ekki að vinna að varðveislu tungunnar fyrr en árið 1984 þegar sett voru lög um tungumálið sem festu að lokum í sessi lúxemborgísku, sem eitt af þremur opinberum tungumálum landsins þ.e. auk frönsku og þýsku. Og þá fyrst var hafin kennsla tungumálsins í skólum en íslenskan hefur eins og allir vita verið kennd hér í skólum í mjög langan tíma," segir Corgan.
Að sögn hans má skoða skipulega viðleitni þjóða til varðveislu og eflingar eigin tungumála á fimm sviðum. Í fyrsta lagi á sviði fjölþjóðasamskipta þar sem ríki á sama málsvæði vinna saman að samræmingu tungumáls, t.d. á framburði. Í öðru lagi á sviði stjórnvalda sem gefa fyrirmæli og setja reglur með það að markmiði að efla og vernda málið. Í þriðja lagi er svo stundum að finna stofnanir eða samtök á vegum hins opinbera, sem vinna að varðveislu og eflingu tungumáls og nefnir Corgan Íslenska málstöð sem gott dæmi um slíka stofnun, en hún er opinber miðstöð nýyrða- og íðorðastarfsemi í landinu. Í fjórða lagi er svo háskólasviðið og loks er svo varðveisla tungumálsins á sviði daglegra samskipta og viðskipta innan samfélaga, t.d. á hvern hátt einstakar sérgreinar leggja sitt af mörkum til tungumálsins með þýðingu tækniorða og við nýyrðasmíð.
Á Íslandi hefur verið unnið skipulega að varðveislu tungunnar á öllum þessum stigum nema á hinu fjölþjóðlega, að sögn Corgans.
,,Mér varð strax ljóst að þetta væri mjög merkilegt því margar stærri þjóðir gerðu ekki einu sinni tilraun til að þýða þessi orð," segir hann.
Corgan segir að fyrst íslenskan stóð svo föstum fótum gagnvart áhrifum risaveldanna hafi honum þótt fróðlegt að skoða hvort náðst hafi sami árangur gagnvart áhrifum tölvutækninnar og Netsins. Eins og öllum sé kunnugt hafi Microsoft hugbúnaðarframleiðandinn á endanum fallist á að gefa út íslenskar þýðingar á Windows-stýriforritinu og fleiri forritum frá Microsoft, sem notuð eru bæði af einstaklingum og í skólum. Corgan segir þetta góð dæmi um hvernig Íslendingum hafi tekist að verja tungumálið andspænis sterkum áhrifum sem ógnuðu tungunni.
Ísland er fyrirmynd annarra þjóða í viðleitni til að varðveita og efla eigið tungumál, að mati Corgans. "Íslendingar hafa staðið sig sérstaklega vel á þessu sviði og náð eftirtektarverðum árangri," segir hann.