Fjórir ungir menn reyndu að hlaupa af vettvangi eftir að bifreið var ekið gegnum steinstólpa á Vesturlandsvegi skammt frá Korpúlfsstöðum á sjötta tímanum í morgun.
Lögregla náði til þriggja þeirra skammt frá en maður, sem segist hafa ekið bifreiðinni, hafði samband við lögregluna á Akranesi um klukkan 9 og bauðst til að gefa sig fram. Kom hann á lögreglustöðina í Reykjavík rúmum hálftíma seinna.
Blóð- og þvagsýni var tekið af mönnunum til að ganga úr skugga um hvort þeir hafi verið ölvaðir er óhappið varð. Bifreiðinni var ekið á um meters háa steinstólpa sem eru á veginum vegna framkvæmda. Ofan á þeim voru ljós og merkingar til að vara við aðstæðum og vísa bílum inn á hjáleið en bifreiðinni var, að sögn lögreglu, ekið beint á stólpana. Endaði hún á toppnum og er stórskemmd.