Færeyjar og Ísland að verða eitt markaðssvæði

Viðskiptaskrifstofa utanríkisráðuneytisins segir, að gengið hafi verið frá mjög umfangsmiklum fríverslunarsamningi milli Færeyja og Íslands, án milligöngu EFTA, og sé samningurinn til umfjöllunar hjá færeyskum yfirvöldum um þessar mundir.

Fram kemur í vefriti ráðuneytisins, að samningurinn nái til allra afurða og sé því víðtækari en allir aðrir fríverslunarsamningar sem Ísland hafi gert. „Þegar þessi samningur öðlast gildi má segja að Færeyjar og Ísland verði eitt markaðssvæði fyrir allar vörur og alla þjónustu“, er haft eftir Grétari Má Sigurðssyni, skrifstofustjóra viðskiptaskrifstofunnar.

Íslendingar og Færeyingar gerðu með sér fríverslunarsamning árið 1992 en undirbúningur hófst á árinu 2002 um að útvíkka samninginn með það að markmiði að gefa vöru- og þjónustuviðskipti milli ríkjanna alfarið frjáls.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka