Fjórðungur íslenskra karlmanna reykir daglega

Fjórðungur íslenskra karlmanna reykti daglega á árinu 2003 og 19% kvenna, að því er fram kemur í samnorrænni rannsókn þar að lútandi.

Hvað reykingar karlmanna snertir er hlutfallið hér mjög svipað og í Finnlandi og Noregi þar sem 26% og 27% karlmanna reykja. Mestar eru reykingarnar í Danmörku þar sem 30% karlmanna reykja, en langminnst er reykt í Svíþjóð þar sem 17% karlmanna reykja og litlu fleiri konur eða 18%. Margir þeirra sem hætta að reykja þar hins vegar fara yfir í neftóbak (snus) og nú er svo komið að fleiri karlmenn í Svíþjóð nota neftóbak en reykja. Þegar það var síðast mælt var hlutfall þeirra sem nota neftóbak 20% og þar af hafði rúmur helmingur, 51%, reykt áður. Svíþjóð er fyrsta iðnvædda landið sem nær því markmiði Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar að innan við 20% af hvoru kyni reyki.

Í könnuninni kemur jafnframt fram að reykingar hafa aukist mest á meðal finnskra kvenna, en norskar konur reykja mest. Frá 1980 hafa reykingar meðal finnskra kvenna aukist úr 17% í 19%. Reykingar íslenskra kvenna hafa minnkað um tíu prósentustig frá árinu 1991, úr 29% þá í 19% á síðasta ári. Reykingar danskra kvenna hafa minnkað úr 30% 1997 í 24% í fyrra og í Noregi hafa reykingar kvenna minnkað úr 30% árið 1980 í 25% í fyrra.

Neftóbakið, eða snusið, er langalgengast í Svíþjóð eins og fyrr sagði. 20% karlmanna nota neftóbak og 1% kvenna. Hins vegar koma íslenskir karlmenn næst þar á eftir, en 12% karla og 1-2% kvenna notuðu neftóbak árið 2000. Í Noregi notuðu 7% karlmanna neftóbak og 1-2% kvenna. Finnland og Danmörk skera sig úr að þessu leyti. Í Finnlandi notuðu 1,7% karlmanna neftóbak og 0,1% kvenna og í Danmörku 1% karla og 0,4% kvenna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert