Ætlum ekki að hvika

Eiríkur Jónsson, formaður KÍ, ávarpar mörg hundruð kennara og kennaranema …
Eiríkur Jónsson, formaður KÍ, ávarpar mörg hundruð kennara og kennaranema við húsnæði ríkissáttasemjara í morgun. mbl.is/Kristinn

Mörg hundruð kennarar og kennaranemar tóku sér stöðu fyrir utan húsnæði ríkissáttasemjara í Borgartúni 21 áður en fundur samninganefndar Kennarasambandsins og Launanefndar sveitarfélaganna hófst þar klukkan 9 í morgun. Mikill hugur var í viðstöddum og voru kröfuspjöld á lofti. Eiríkur Jónsson, formaður KÍ, ávarpaði fjöldann áður en fundurinn hófst. „Við ætlum ekki að hvika,“ sagði Eiríkur og vísaði til þeirra krafna sem kennarar hafa sett fram.

„Samninganefnd kennara, við stöndum þétt við bakið á ykkur,“ stóð á einu kröfuspjaldanna sem kennarar héldu á lofti. „Við stöndum enn þéttar að baki ykkar,“ stóð á öðru kröfuspjaldi. Var komu fulltrúa samninganefndar KÍ að húsinu fagnað með þéttu lófataki.

Um klukkan 8.50 höfðu nokkur hundruð kennarar tekið sér stöðu við húsnæði ríkissáttasemjara og fleiri þyrptust að. Meðal þeirra voru um eitt hundrað kennaranemar sem komu í kröfugöngu að húsinu. „Er líf eftir útskrift?“ var spurt á einu spjaldanna sem nemarnir báru.

Ólafur Loftsson, formaður svæðisfélags Kennarasambands Íslands í Reykjavík og kennari í Foldaskóla, ávarpaði samkomuna. Sagði hann meðal annars að hefðu einhverjir haldið að kennarar stæðu ekki þétt að baki samninganefndar KÍ væri þeirri óvissu hér með eytt. Launanefnd sveitarfélaganna ætti að vera ljóst núna að mikill einhugur væri meðal kennara. „Launanefnd sveitarfélaganna hefur ekki og mun ekki, takast að reka fleyg í samstöðu okkar,“ sagði Ólafur. Las hann upp eftirfarandi stuðningsyfirlýsingu kennarafélaganna við samninganefnd FG og kröfugerð FG: „Grunnskólakennarar standa þétt við bakið á samninganefnd FG og kröfugerð kennara. Við óskum þess að hvergi verða hvikað frá kröfugerðinni. Látið ekki talnaleiki Launanefndar sveitarfélaganna slá ryki í augu ykkar.“

Eiríkur Jónsson, formaður KÍ, ávarpaði þvínæst samkomu kennaranna. „Ég bið ykkur að hafa algera þögn í 15 sekúndur og ég segi ykkur á eftir hvers vegna,“ sagði Eiríkur. Að þögninni lokinni sagði hann að í fyrradag hefði 15 bæjarstjórum verið boðið að ræða við samninganefnd kennara, en enginn þeirra hefði mætt. „Þetta var það sem þeir höfðu við ykkur að segja,“ sagði Eiríkur og uppskar mikið lófatak.

„Ég veit ekki hvað gerist bak við þessar luktu dyr,“ sagði Eiríkur ennfremur um væntanlegan samningafund en bætti við að kennarar ætluðu ekki að hvika. Þá sagðist hann hafa tvær spurningar sem hann vildi leggja fyrir Birgi Björn Sigurjónsson, formann Launanefndar sveitarfélaganna, sem var á staðnum. Í fyrsta lagi, sagðist Eiríkur vilja spyrja hvort það væru of miklar kröfur að fara fram á 230 þúsund króna mánaðarlaun fyrir kennara með 30 ára starfsreynslu. Í öðru lagi sagðist Eiríkur vilja fá svör við því hjá Birgi Birni, hvort krafan um minnkun kennsluskyldu úr 28 tímum í 26 væri óeðlileg í ljósi þess að kennsluskylda framhaldsskólakennara væri 24 tímar.

Afhentu borgarastjóra og menntamálaráðherra yfirlýsingu

Eftir að fundur samninganefndanna hófst héldu fjölmargir kennarar í Ráðhús Reykjavíkur, en klukkan 9.45 stóð þar til að afhenda borgarstjóra yfirlýsingu vegna verkfallsins. Borgarstjóri reyndist hins vegar í útlöndum og Stefán Jón Hafstein, borgarfulltrúi og formaður fræðsluráðs, reyndust báðir í útlöndum og tók fulltrúi í móttöku Ráðhússins við yfirlýsingunni.

Kennarar eru nú á leið í menntamálaráðuneytið þar sem þeir ætla að reyna að ná tali af Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra. Hún mun einnig vera erlendis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert