Fjölgun í Húsdýragarðinum

Rauðsokkóttur nautkálfur kom í heiminn í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Reykjavík um þrjúleytið í dag, að því er segir í fréttatilkynningu frá garðinum. Vó kálfurinn 38 kíló. Móðir hans er kýrin Búkolla, fædd 2001 á bænum Selalæk á Rangárvöllum, og faðirinn er nautið Hvítingur, fæddur 1996.

Búkolla bar inni í fjósi og þurfti smá aðstoð undir lokin, segir í tilkynningu Húsdýragarðsins. Nautið Guttormur og kýrin Slaufa hafi fylgst vandlega með.

Gestum í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum gefst kostur á að sjá kálfinn og er því beint til hugmyndaríkra dýravina að stinga upp á nafni á kálfinn. Senda má uppástungur á netfangið unnur@husdyragarður.is eða í gestabók garðsins á www.mu.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert