Félag íslenskra barnalækna lýsir í ályktun, sem samþykkt var á félagsfundi, yfir þungum áhyggjum af verkfalli grunnskólakennara. Verkfallið bitni hart á börnum landsins, trufli nám þeirra og valdi miklu óöryggi og vanlíðan, ekki síst hjá þeim sem þegar standi höllum fæti. Skorar félagið á deiluaðila að leysa deiluna nú þegar.
Katrín Davíðsdóttir, formaður Félags íslenskra barnalækna, segir það vera eitt af hlutverkum barnalækna að standa vörð um hagsmuni barna. Ljóst sé að öll röskun á rútínu barna trufli þau, skólarnir séu þeirra vinnustaður. Börn hafi mörg hver áhyggjur af framvindu námsins, ekki síst þau sem fari í samræmd próf. Þá raski verkfall högum fatlaðra barna verulega, sem og ofvirkra barna og barna með hegðunarraskanir. En erfitt sé fyrir öll börn að verða fyrir barðinu á verkföllum.
"Við vonumst til þess að deiluaðilar beri gæfu til að finna farsæla lausn sem allra fyrst," segir Katrín.