Rússneska sendiráðið á Íslandi hefur ekki fengið nákvæmar upplýsingar um æfingar rússnesku herskipanna, sem hafa farið fram austur af Vopnafirði undanfarna daga. Sergey S. Gushchin, þriðji ritari við rússneska sendiráðið, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær, að herskip flotans væru við æfingar á Norður-Atlantshafi frá 25. september til 25. október.
"Að sjálfsögðu ekki í íslenskri lögsögu, heldur fara þær fram á alþjóðlegum hafsvæðum. Við höfum ekki fengið frekari upplýsingar um hversu stór floti er þarna eða hversu nálægt Íslandi herskipin eru," sagði Gushchin en lagði áherslu á að skipin væru á alþjóðlegu hafsvæði.
Aðspurður hvort æfingar herskipanna væru hluti af fjögurra daga sameiginlegri flotaheræfingu Rússlands og Bandaríkjanna sem stóð yfir í Norðursjó í byrjun mánaðarins, sagði Gushchin svo ekki vera.
"Ég held að þetta séu sjálfstæðar heræfingar. Mér skilst að flotinn hafi verið í Brest í nokkra daga og hann farið þaðan til æfinga á Norður-Atlantshafi," sagði Gushchin.