Þjóðarhreyfingin hefur sent frá sér ályktun þar sem þess er krafist að Ísland verði tekið út af lista hinna „fúsu & staðföstu" eins og það er orðað. Einnig krefst Þjóðarhreyfingin að forsætis- og utanríkisráðherra játi mistök sín og biðji Íslendinga afsökunar á því að hafa beitt þjóðina blekkingum um ástæður innrásarinnar og lögmæti hennar að alþjóðalögum.
Í ályktuninni segir, að forsætis- og utanríkisráðherra eigi að axla ábyrgð á gjörðum sínum með því að segja af sér. Ella eigi sómakærir alþingismenn að bera upp vantrauststillögu á ríkisstjórn Halldórs Ásgrímssonar eða að öðrum kosti krefjast þess að Landsdómur fjalli um málið og úrskurði um embættisglöp ráðherranna.
Undir ályktunina skrifa Ólafur Hannibalsson og Hans Kristján Árnason fyrir hönd Þjóðarhreyfingarinnar.