Gulrófur hafa hækkað um 29% frá því í maí, steinselja um 22% og íslenskar agúrkur og gulrætur um 20%. Á sama tíma hefur meðalverð lækkað á jöklasalati/ísbergssalati um 26% og á kínakáli um 14%.
Þetta kemur fram í niðurstöðum verðkönnunar Samkeppnisstofnunar á grænmeti og ávöxtum en stofnunin hefur í rúmlega tvö ár gert mánaðarlegar kannanir á þessum vörum eftir afnám tolla á ýmsum grænmetistegundum veturinn 2002. Síðast birti stofnunin niðurstöður úr slíkri könnun í maí sl. en síðustu könnun gerði stofnunin hinn 11. október síðastliðinn.
Fyrsta könnunin var gerð í febrúar árið 2002 fyrir afnám tolla og náði til ellefu verslana á höfuðborgarsvæðinu. Meðalverð úr þeirri könnun hefur verið haft til viðmiðunar þegar verðþróun á þessum markaði hefur verið metin.
Kristín Færseth, deildarstjóri hjá Samkeppnisstofnun, segir að þegar meðalverð á grænmeti sé skoðað komi í ljós að það er í sumum tilvikum hærra nú en það var í könnun sem gerð var fyrir ári.
Kristín bendir á að verð á grænmeti og ávöxtum er sveiflukennt og ræðst m.a. af verði á erlendum mörkuðum, uppskeru og árstíma.
Kristín segist ekki hafa staðist mátið og keypt einn poka bæði af ódýrustu og dýrustu gulrótunum og gert síðan könnun meðal starfsmanna Samkeppnisstofnunar m.a. til þess að athuga hvort einhver sláandi gæðamunur væri á gulrótunum. Starfsmenn voru látnir smakka á báðum tegundum án þess að vita hvor þeirra væri sú ódýrasta og hvor sú dýrasta og völdu svo hvor tegundin þeim þætti bragðbetri. Í stuttu máli var niðurstaðan sú að 42% þeirra sem smökkuðu þótti dýrari gulræturnar betri, 42% þótti ódýrari gulræturnar betri en 16% fundu engan mun. Samkvæmt niðurstöðunni hér að ofan er varla hægt að útskýra 266% verðmun með því að það sé einhver afgerandi gæðamunur á vörunum enda í báðum tilvikum um hefðbundnar íslenskar gulrætur að ræða, ræktaðar á Suðurlandi.