Dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir líkamsárás

Stefán Logi Sívarsson hefur verið dæmdur til að sæta fangelsi í 3 ár fyrir sérstaklega fólskulega líkamsárás að Skeljagranda 2 laugardaginn 3. apríl sl auk fleiri brota. Til frádráttar refsivistinni kemur gæsluvarðhald sem Stefán Logi hefur sætt vegna málsins.

Stefán Logi var ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa ráðist á 16 ára pilt og slegið hann með krepptum hnefa í andlit og maga svo hann féll í gólfið og síðan sparkað í kvið hans þar sem hann lá á gólfinu með þeim afleiðingum að milta hans rifnaði og af hlaust lífshættuleg innvortis blæðing. Jafnframt hlaut pilturinn áverka á kjálka og jaxl í neðra gómi hans brotnaði.

Stefán Logi var einnig ákærður fyrir líkamsárás, með því að hafa í félagi við annan mann, mánudaginn 5. apríl ráðist á mann sem þar lá í sófa í íbúð við Hverfisgötu og slegið hann mörg högg í höfuð og líkama. Þá beit Stefán í vinstra eyra og vinstri hendi mannsins. Sá hlaut einnig sár í vinstri lófa sökum þess að gaffall er hann hélt á er mennirnir réðust að honum, stakkst í hann.

Auk þess var Stefán Logi ásamt öðrum ákærður fyrir aðra líkamsárás við Skólavörðustíg þennan sama dag og umferðarlagabrot mánuði fyrr.

Stefán Logi, á að baki samfelldan sakaferil frá árinu 1997, er hann hlaut skilorðsbundna frestun ákæru fyrir þjófnað og líkamsárás. Frá árinu 1998 hefur hann hlotið 8 refsidóma fyrir nytjastuld og umferðarlagabrot, þjófnað, gripdeild, hylmingu og fyrir líkamsárásir. Í fjórum dómanna hefur ákærði verið sakfelldur fyrir líkamsárásir og í sumum tilvikanna fleiri en eina. Síðasti dómur sem Stefán Logi fékk var tveggja ára fangelsi sem hann var dæmdur í maí 2003. Hinn 25. nóvember sl. hlaut Stefán Logi reynslulausn í 1 ár á 240 daga eftirstöðvum refsingar.

Fram kemur í dómnum, að samkvæmt sálfræðilegri rannsókn eigi Stefán Logi við ýmiss konar félagsleg og persónuleg vandamál að stríða, sem að langmestu leyti má rekja til fíkniefnaneyslu hans frá unga aldri og mjög erfiðra uppeldisskilyrða. Hann er hins vegar talinn sakhæfur. Fram kemur að Stefán Logi játaði að mestu leyti brot sitt hreinskilnislega og er það virt honum til refsilækkunar.

Sá sem ákærður var ásamt Stefáni Loga fyrir tvær af líkamsárásunum var dæmdur til að greiða 75 þúsund krónur í sekt. Fram kemur í dómnum, að hann var í Hæstarétti árið 1999 dæmdur í 2½ árs fangelsi fyrir fíkniefnabrot og þjófnað. Hinn 16. september 2000 hlaut hann reynslulausn í 2 ár á 630 daga eftirstöðum refsingar. Hann stóðst reynslulausnina og hefur ekki áður gerst sekur um líkamsárás.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert