Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, kynnti á fundi í morgun hugmyndir fyrir menntamálaráðherra um nýja lausn í kennaraverkfallinu. Haft var eftir Kristjáni Þór í fréttum Ríkisútvarpsins, að hann telji að kennarar gætu betur unað við tillögur sínar en það sem boðið hefur verið til þessa.
Fram kom í fréttum Ríkisútvarpsins, að Kristján Þór hafi átt trúnaðarsamtöl við kennara á Akureyri með það að markmiði að einfalda samninga og breyta vinnutíma kennara. Var haft eftir honum að hljóðið hafi verið nokkuð gott í þeim kennurum sem hann hafi talað við fyrir norðan.
Samningafundur grunnskólakennara og Launanefndar sveitarfélaganna hefur verið boðaður í húsakynnum ríkissáttasemjara klukkan 17 í dag.