Óveðrið á sunnan- og austanverðu landinu í síðustu viku setti mark sitt á framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun. Ekkert fyllingarefni var flutt í Kárahnjúkastíflu frá mánudegi til fimmtudags og vikuafköstin urðu því ekki nema um 18.500 rúmmetrar, sem er meira en helmingi minna en venjulega, að því er fram kemur á vef Kárahnjúkavirkjunar.
Þá segir að hægt hafi gengið hjá risaborvélunum öllum, einkum nr. 1 og 2. Ástæðan er að hluta óhagstætt berg, bilun í rafkerfi og vandræði með færibönd, sem að einhverju leyti má rekja til veðurhamsins.
Lokið var við þriðja áfanga af fjórum við að dýpka stöðvarhúshellinn í Fljótsdal og nú er hellisgólfið allt 14,5 metrar yfir sjávarmáli endanna á milli. Aðfaranótt þriðjudagsins var byrjað á fjórða og síðasta áfanganum og þegar sú sneið er komin í molun út úr fallinu verður mesta lofthæð í stöðvarhúshelli um 35 metrar.
Steypuvinna er í gangi í spennahellinum í Valþjófsstaðarfjalli, vegaframkvæmdir í aðkomugöngum stöðvarhússins og unnið er að undirbúningi byggingar þjónustuhúss Kárahnjúkavirkjunar. Húsið verður í framtíðinni eins konar „hlið“ sem starfsmenn og gestir ganga um inn í fjallið.