Mikil samstaða er meðal grunnskólakennara um að samþykkja ekki miðlunartillögu ríkissáttasemjara, uppfylli hún ekki kröfur kennara. Þetta kom fram í máli kennara í Hjallaskóla í Kópavogi og í Hlíðaskóla í Reykjavík, sem Fréttavefur Morgunblaðsins ræddi við nú í morgun eftir að þeir mættu til vinnu í fyrsta sinn í sex vikur, en verkfall kennara hófst 20. september.
Þau Guðrún Magnúsdóttir, Guðný Hafsteinsdóttir, Þórður Magnússon, Fanney Hauksdóttir og Guðbjörg Pálsdóttir, kennarar í Hjallaskóla sögðust gjarnan hafa viljað að samkomulag hefði náðst í deilunni. „Maður var alltaf að vona að það yrði samið,“ segir Þórður og bætir við að hann hafi ekki búist við að verkfallið stæði lengur en í þrjár til fjórar vikur. „Svo er þetta allt mjög óljóst ennþá og það er kannski versti hluturinn,“ segir Þórður.
Þau segja kennara kvíðna vegna stöðunnar en að þau voni að kennarar standi þétt saman um það að samþykkja ekki tillögu sem þeir séu ekki ánægðir með. Þau fullyrða að samstaða sé um það meðal kennara. „Við höfum verið í löngu verkfalli og ef samningurinn er ekki nógu góður, þá segjum við nei,“ segir Guðný.
Þau benda á að kennarar hafi stuttan tíma til þess að fara yfir miðlunartillöguna. „Þegar börnin eru komin í skólann gerir það okkur einnig erfiðara fyrir með að kynna okkur þetta út í hörgul, en við verðum að gera það,“ segir Fanney.
Verið að gera stöðuna erfiðari
Þær Þórdís Þórisdóttir, trúnaðarmaður kennara í Hlíðaskóla og Helena Pálsdóttir og Birna Halldórsdóttir, kennarar við skólann, sögðu mjög erfitt að mæta til starfa eins og staðan í deilunni væri nú, en samstaða kennara væri 100%. Þær segja urg í kennurum. „Þetta er mikill þrýstingur á okkur þegar búið er að kalla börnin inn í skólana, að eiga að fara að ýta þeim út úr skólanum aftur ef við samþykkjum ekki þessa tillögu,“ segir Þórdís. Helena bendir á að ótrúleg samstaða hafi verði meðal kennara. „Ef þessi miðlunartillaga er ekki það sem við höfum verið að fara fram á síðustu vikur verður hún felld,“ segir Helena.
Þórdís segir að hún hafi verið á fundi með öðrum trúnaðarmönnum í grunnskólum til hálf sex í gærkvöldi og þá hafi ekki verið komið upp á borðið að miðlunartillaga yrði lögð fram. „Við samþykktum samt á fundinum ályktun um það að ef miðlunartillaga kæmi upp á borðið, vildum við ekki að verkfalli yrði frestað. Það var mjög mikill einhugur um það að kennarar færu ekki út í skólana fyrr en búið væri að greiða atkvæði um þessa tillögu og að atkvæðagreiðslu væri flýtt eins og kostur væri,“ segir Þórdís.
Þær segja að kennarar hefðu viljað fá 3 - 4 daga til þess að afgreiða tillöguna og að verkfalli yrði ekki frestað á meðan. Verið sé að gera stöðuna erfiðari með því að kalla börnin til náms aftur núna. „Þetta kemur manni mjög í opna skjöldu. Mikil ábyrgð hvílir á þeim sem kastar þessu fram með þessum hætti að leyfa okkur ekki að klára þetta með atkvæðagreiðslu svo kennarar fari til starfa í sátt,“ segir Helena.
Birna bendir á að útspil sveitarstjórnarmanna síðustu daga hafi komið á viðkvæmum tíma og sé í raun einskonar olía á eldinn. „Þarna eru menn sem hafa greinilega ekki kynnt sér kjarasamning eða kynnt sér um hvað deilan er búin að snúast en koma svo fram með eitthvað sem þeim finnst vera patentlausnir,“ segir Birna.