Ekki hreyft frekar við Guðrúnu Gísladóttur

Guðrún Gísladóttir KE á strandstað en skipið rann af skerinu …
Guðrún Gísladóttir KE á strandstað en skipið rann af skerinu og sökk. mbl.is

Íslenska fjölveiðiskipið Guðrún Gísladóttir KE-15 mun um aldur og ævi liggja í votri gröf undan Lófót í Noregi, að því er forsvarsmenn norsku strandgæslunnar tilkynntu á ráðstefnu um björgunarstarfið sem efnt var til í Vestvågøy í gær með íbúum í nágrenni slysstaðarins.

Guðrún sökk í júní árið 2002 og í sumar var tilraunum til að ná henni á flott hætt er í ljós kom að stór rifa var eftir endilöngum skrokk hennar. „Skipasiglingum stafar engin hætta af Guðrúnu eins og hún liggur nú. Og það er engin mengunarhætta af henni þar sem búið er að tæma skipið af olíu. Formlega er skipið í eigu útgerðarfélagsins sem átti það þegar það sigldi á sker og sökk,“ sagði Øyvind Stene, yfirmaður strandgæslunnar á ráðstefnunni.

Þrátt fyrir orð strandgæslustjórans létu íbúar í Vestvågøy í ljós megna óánægju með að hætt skulil hafa verið tilraunum til að fjarlægja flak íslenska fjölveiðiskipsins, að því er fram kemur í frétt svæðisútvarps norska ríkisútvarpsins.

„Þetta mál er ekki úr sögunni. Og eigi skipið að liggja verður að koma upp eftirlitskerfi til að fylgjast með því þannig að við vitum hvar það liggur,“ segir Guri Ingebrigtsen sveitarstjóri en hún hefur næstum þvi glatað trúnni á að flakið verði fjarlægt.

Guðrún hefur legið á 40 metra dýpi í Nappstraumen við Lófót frá því hún rann fram af skeri sem hún steytti á um miðjan júní árið 2002. Um tveggja ára skeið voru gerðar nokkrar árangurslausar tilraunir til að rétta skipið af og ná því á flot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert