Ragnar Stefánsson jarðskjálftafræðingur segir að eldgosið í Grímsvötnum sé frekar að magnast en hitt og að í því séu tilbrigði. „Það fellur saman við að gossvæðið sé eitthvað að stækka, sem sjónarvottar hafa þóst verða varir við,“ segir hann. „Gosmökkurinn er hár, 12-14 kílómetrar. Það er nú eiginlega aðalfréttin, að það er ekkert lát á þessu,“ sagði Ragnar í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins nú á níunda tímanum.
Ragnar segist aðspurður ekki telja líklegt að gosið hafi náð hámarki. „Þetta gos er það lengi að ná hámarki að manni finnst líklegt að það verði ef til vill stærra en gosið 1998,“ segir hann. „Gossvæðið er að stækka og óróinn kemur í langvarandi kviðum, sem bendir frekar til þess að eldgosið sé að vaxa.“