Eldgos í Grímsvötnum

Gos í Vatnajökli.
Gos í Vatnajökli. mbl.is

Eldgos hófst í Vatnajökli um kl. 22.00 í gærkvöldi. Þá gerði ákafur gosórói vart við sig eftir snarpa jarðskjálftahrinu í gærkvöldi. Ekki hafði orðið vart við öskufall eða sést gosmökkur í radar um miðnætti í nótt.

Að sögn Magnúsar Tuma Guðmundssonar jarðeðlisfræðings var þá óvíst hvort eldgosið hefði náð upp úr jöklinum eða ekki.

Veginum yfir Skeiðarársand var lokað um miðnætti af öryggisástæðum. Lögreglustjórarnir í Vík í Mýrdal og á Höfn í Hornafirði fóru að tilmælum almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og lokuðu veginum við Núpsstað að vestan og við afleggjarann að Skaftafelli að austan.

Samkvæmt upplýsingum frá flugstjórn á Reykjavíkurvelli var tveimur flugvélum beint suður fyrir áætlaða ferla af öryggisástæðum seint í gærkvöld. Var ein flugvélin á leiðinni til lendingar á Keflavíkurflugvelli og önnur var á yfirflugi á leið til Bandaríkjanna.

Snörp skjálftahrina hófst um klukkan 19.30

Jarðskjálftamælar Veðurstofunnar sýndu að gosórói gerði vart við sig kl. 21.50 eftir snarpa jarðskjálftahrinu í Grímsvötnum sem hófst kl. 19.30 í gærkvöldi, að sögn Matthew Roberts jöklafræðings hjá Veðurstofunni. Skjálftunum fjölgaði eftir því sem leið á kvöldið. Jarðskjálftamælir á Grímsfjalli sýndi vaxandi gosóróa frá kl. 21.50 líkt og fleiri jarðskjálftamælar í kringum Vatnajökul.

"Það bendir til þess að sífellt aukið magn kviku streymi til yfirborðsins," sagði Matthew. Hann sagði að samkvæmt uppruna jarðhræringanna væri gosstaðurinn á svipuðum slóðum og gaus 1998. Það er innan Grímsvatna, vestast við norðurhlið Grímsfjalls. Þó taldi Veðurstofan ekki hægt að útiloka að gosstaðurinn væri aðeins sunnar, jafnvel aðeins sunnan við Grímsfjall.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert