Eldgos hófst í Vatnajökli um kl. 22.00 í gærkvöldi. Þá gerði ákafur gosórói vart við sig eftir snarpa jarðskjálftahrinu í gærkvöldi. Ekki hafði orðið vart við öskufall eða sést gosmökkur í radar um miðnætti í nótt.
Að sögn Magnúsar Tuma Guðmundssonar jarðeðlisfræðings var þá óvíst hvort eldgosið hefði náð upp úr jöklinum eða ekki.
Veginum yfir Skeiðarársand var lokað um miðnætti af öryggisástæðum. Lögreglustjórarnir í Vík í Mýrdal og á Höfn í Hornafirði fóru að tilmælum almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og lokuðu veginum við Núpsstað að vestan og við afleggjarann að Skaftafelli að austan.
Samkvæmt upplýsingum frá flugstjórn á Reykjavíkurvelli var tveimur flugvélum beint suður fyrir áætlaða ferla af öryggisástæðum seint í gærkvöld. Var ein flugvélin á leiðinni til lendingar á Keflavíkurflugvelli og önnur var á yfirflugi á leið til Bandaríkjanna.
"Það bendir til þess að sífellt aukið magn kviku streymi til yfirborðsins," sagði Matthew. Hann sagði að samkvæmt uppruna jarðhræringanna væri gosstaðurinn á svipuðum slóðum og gaus 1998. Það er innan Grímsvatna, vestast við norðurhlið Grímsfjalls. Þó taldi Veðurstofan ekki hægt að útiloka að gosstaðurinn væri aðeins sunnar, jafnvel aðeins sunnan við Grímsfjall.