Nokkrir vísindamenn halda með flugvél áleiðis yfir gosstöðvarnar í Vatnajökli nú um klukkan hálfátta til að freista þess að átta sig nánar á eldgosinu sem hófst í Grímsvötnum í gærkvöldi. Verið er að kanna hvort vegurinn yfir Skeiðarársand verði opnaður að nýju í dögun.
Víðir Reynisson verkefnafulltrúi í samhæfingarstöð almannavarnadeildar ríkislögreglulstjórans í Skógarhlíð tjáði Fréttavef Morgunblaðsins (mbl.is) að fulltrúar Vegagerðar ríkisins væru nú á Skeiðarársandi að meta aðstæður með tilliti til þess hvort vegurinn um sandinn verði opnaður að nýju í birtingu.
Veginum var lokað í gærkvöldi af öryggisástæðum við Núpsstað og Skaftafell en rennsli í Skeiðará hefur ekki aukist í nótt.
Óvíst er að sögn Víðis að nokkuð sjáist niður til gosstöðvanna sakir skýjafars og veðurhorfur eru ekki bjartar. Í flugvélinni sem er á leið til gosstöðvanna eru meðal annarra Magnús Tumi Guðmundson jarðeðlsifræðingur, Guðrún Larssen og Freysteinn Sigmundsson, forstöðumaður Norræna eldfjallasetursins.