Eldgos er hafið í Grímsvötnum í Vatnajökli. Í fréttatilkynningu frá Veðurstofunni kemur fram að smám saman hafi orðið ljósara að um gos sé að ræða og að það komi upp úr ísnum. „Það er erfitt að dæma um það með fullri vissu hvenær gosið hefur komist upp úr ísnum. Mjög líklegt er að það hafi komist upp úr ísnum um kl. 21 50. Þá hætta að vera skjálftar í óróanum, sem bendir til að gosrásin upp úr sé orðin greið. Það hefur enn ekki sést til gossins en það stafar væntanlega af því að þarna er slæmt veður og afleitt skyggni,“ segir í tilkynningunni frá Veðurstofunni.
„Þegar borinn er saman gosóróinn og jarðskjálftar núna og fyrir gosið 18. desember 1998, bendir það til þess að um svipaðan atburð sé að ræða. Þó voru skjálftar miklu meiri á undan gosinu 1998, sérstaklega síðustu 5 klukkustundirnar á undan gosinu. Þessi mismunur gæti stafað af því að gosið núna ætti greiðari leið en þá upp á yfirborðið vegna þess hve stutt er frá gosinu 98.
Varðandi nákvæma staðsetningu gossins virðist það vera í eða nálægt Grímsvötnum. Ekki er þó hægt að útiloka að það sé aðeins sunnar, jafnvel aðeins sunnan við Grímsfjall.
Búið er að loka veginum um Skeiðarársand, þar sem búast má við auknu vatnsrennsli í hlaupinu sem nú stendur yfir. Áfram verður fylgst með framvindunni á Veðurstofunni í nótt.“