Upp úr klukkan ellefu í morgun lenti flugvél Flugmálastjórnar á Reykjavíkurflugvelli með jarðvísindamenn sem flogið var með yfir gosstöðvarnar. Magnús Tumi Guðmundsson jarðfræðingur sagði við komuna að sér virtist gosið vera að svipaðri stærðargráðu og árið 1998. Hann telur að öskufall frá gosinu nái ekki út fyrir Vatnajökul og segir að gosmökkurinn liggi í norð-norð-austur.
Í fréttatilkynningu frá Flugmálastjórn kemur fram að eldgosið í Grímsvötnum hefur valdið því að um 311 þúsund ferkílómetra svæði norð-austur af gosstöðvunum er lokað fyrir flugumferð og verður svo áfram þar til nánari upplýsingar liggja fyrir um útbreiðslu gosmökksins og öskunnar frá gosinu. Þessi lokun hefur ekki haft mikil áhrif á alþjóðaflugið en þó hefur þurft að beina um tíu flugvélum suður fyrir lokaða svæðið.
Snæbjörn Guðbjörnsson flugstjóri á TF-FMS telur að hæstu toppar gosmökksins nái í 29 þúsund feta hæð. Skyggni yfir gosstöðvunum var ekki gott og sáu menn ekki niður á gosstöðvarnar sjálfar.