Grímsvatnagos sést frá Kárahnjúkum og Egilsstaðaflugvelli

Mikill órói í Grímsvötnum kom fram á skjálftamælum Veðurstofunnar.
Mikill órói í Grímsvötnum kom fram á skjálftamælum Veðurstofunnar. mbl.is/Kristinn

Vörubílsstjóri við Kárahnjúka hafði samband við almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra í nótt og tilkynnti að hann sæi gosmökkinn. Mökkurinn féll nokkuð inn í skýin, en lýstist reglulega upp af eldglæringum. Fyrstu merki um gosmökk sáust á veðurradar Veðurstofunnar klukkan 23:10 og náði mökkurinn þá upp í um 8 km hæð.

Þá sáust miklar eldglæringar frá Egilsstaðaflugvelli í nótt og sögðu heimildarmenn Veðurstofunnar að þar hefði verið um mikið sjónarspil að ræða.

Gosóróinn frá Grímsvötnum hefur verið nokkuð stöðugur frá því upp úr klukkan 23 í gærkvöldi, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni. Klukkan rúmlega eitt í nótt náði mökkurinn upp í um 13 km hæð en var nokkuð breytilegur fram á þriðja tímann.

Björn Sævar Einarsson veðurfræðingur sagði rétt fyrir klukkan 6 að gosmökkurinn væri þá í 10-12 kílómetra hæð. Gosórói væri ekki stöðugur.

Gosmökkurinn sýnist á radarmyndinni vera frekar sunnarlega miðað við Grímsvötn, en að öllum líkindum er það vegna ónákvæmni í mælingunum, en radarinn er í um 260 km fjarlægð frá gosinu.

Margt bendir til að gosið núna sé norðan við gosstöðvarnar frá 1998 en enn hefur ekkert verið staðfest í þeim efnum. Að sögn Ragnars Stefánssonar jarðskjálftafræðings er líklegt að gosið hafi komið upp úr ísnum á Vatnajökli um klukkan 21:50 í gærkvöldi. Þá hættu skjálftar í gosóróanum sem benti til að gosrásin upp úr væri orðin greið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert