Eldgosin í Grímsvötnum 1983 og 1998 áttu sér styttri aðdraganda heldur en nú, að sögn Páls Einarssonar, jarðeðlisfræðings á Raunvísindastofnun Háskóla Íslands.
"Þá gekk allt miklu hraðar fyrir sig. Það sem nú er að gerast gerist í allt öðru samhengi," sagði Páll. "Það er greinilegt að hlaupið kemur núna af stað þessari virkni í jarðskorpunni."
Hann sagði að þetta væri í fyrsta sinn sem vitað væri með vissu að hlaup kæmi af stað gosi. "Það hefur verið grunsemd um að svona kynni það að vera. Þetta gerðist síðast 1934. Þá kom gos um það bil þegar hlaupi var að ljúka. Aðstæðurnar fyrir slíkt voru fyrir hendi nú þegar þetta byrjaði," sagði Páll.
Ýmislegt benti til þess að eldgos gæti verið í aðsigi í Grímsvötnum. Búið var að mæla þar mikinn kvikuþrýsting og hefur verið fylgst með því undanfarin ár hvernig hann hefur aukist. Eins var vitað vatnshæðin í Grímsvötnum hafði aukist og að hlaup var í aðsigi. "Þá vaknaði þessi spurning hvort nú væri það að gerast í fyrsta sinn í 70 ár að hlaup gæti hleypt af stað gosi," segir Páll. "Menn voru því hálfpartinn á höttunum eftir því hvort þetta kynni að gerast."
Páll sagði að Grímsvatnagos hafi yfirleitt verið frekar lítil og ekkert sem benti til að gos nú verði stórt.