Þrettánda eldgosið í Vatnajökli frá 1902

Grímsvötn, í miðjum Vatnajökli vestanverðum, eru virkasta eldstöð á Íslandi og talin meðal öflugustu jarðhitasvæða heims. Er talið að í Grímsvötnum hafi orðið yfir 50 eldgos frá því að land byggðist á Íslandi.

Gosið sem hófst í gærkvöldi er hið þrettánda sem verður í Vatnajökli frá árinu 1902, þar af hafa tíu eldgos átt upptök sín í sjálfum Grímsvötnum, síðast árið 1998. Tveimur árum áður varð eldgos í Gjálp, sem telst til Grímsvatnasvæðisins.

Skeiðarárhlaup hófst sem kunnugt er um helgina og hafa slíkar hamfarir margsinnis orðið í tengslum við eldgos í Grímsvötnum. Það er samspil hraunkvikunnar undir jarðhitasvæðinu við jökulbráð sem viðheldur vatni í Grímsvatnaöskjunni og veldur Skeiðarárhlaupum. Algengara var áður fyrr að slík hlaup voru undanfari eldgosa í Grímsvötnum. Er talið að það hafi síðast gerst árið 1934, þannig að svo virðist sem svipuð atburðarás hafi gerst nú í fyrsta sinn í 70 ár, þ.e. að hlaup sé undanfari eldgoss.

Fyrsta Skeiðarárhlaupið sem heimildir eru til um varð árið 1629. Frá þeim tíma og til ársins 1934 komu hlaup á um tíu ára fresti að meðaltali. Voru þau allt að 67 rúmkílómetrum að magni og gat rennslið náð allt að 40 þúsund rúmmetrum á sekúndu. Frá 1934 urðu hlaupin tíðari í Skeiðará, tvö eða þrjú á hverjum áratug. Gosið í Grímsvötnum 1934 var stórt, sem og norðan við vötnin fjórum árum síðar, en á tveimur næstu áratugum töldust gosin minniháttar. Í Morgunblaðinu 1. apríl árið 1934 var fyrirsögnin: Stórkostlegt eldgos í Vatnajökli veldur hlaupi í Skeiðará. Í undirfyrirsögn stóð: Gosmökkurinn sjest héðan úr Reykjavík og reiknast 16-17 kílómetra hár. Í sama blaði var haft eftir næturvörðum í Reykjavík sem gengu upp að Leifsstyttu á Skólavörðuholti, og horfðu til austurs, að svo þéttir hefðu "blossarnir" verið að þeir hefðu talið eina 60 slíka á tveimur mínútum.

Eldgosinu spáð fyrir ári

Samkvæmt því sem fram kemur í bók Ara Trausta Guðmundssonar jarðeðlisfræðings, Íslandseldar, eru heimildir um að nokkrum sinnum hafi orðið Skeiðarárhlaup án þess að eldgos brytist út í Grímsvötnum. Á 20. öld voru skráð sjö slík hlaup, fyrst árið 1913 og síðan árin 1960, 1972, 1976, 1982, 1986 og 1991. Fyrsta Skeiðarárhlaup á þessari öld, án þess að eldgos varð, var fyrir tveimur árum. Frá árinu 1998 hefur land verið að rísa í Grímsvötnum og var orðið álíka hátt nú síðustu mánuði og fyrir sex árum. Hafa vísindamenn verið að spá líkindum á því að eldgoss væri að hefjast í Grímsvötnum.

Þannig lét Freysteinn Sigmundsson, forstöðumaður Norrænu eldfjallastöðvarinnar, þau ummæli falla á haustfundi Jöklarannsóknafélagsins í október fyrir rúmu ári að búast mætti við eldgosi í Grímsvötnum innan tveggja ára. Studdist Freysteinn þá við landhæðarmælingar með GPS-tækjum sem höfðu verið framkvæmdar í Grímsvötnum og Kötlu. "Menn ættu að hafa varann á sér gagnvart Grímsvötnum með sama hætti og vegna Kötlu," sagði Freysteinn í Morgunblaðinu 22. október 2003. Hann var þá spurður hvort búast mætti við svipuðu eldgosi í Grímsvötnum og varð árið 1998. Freysteinn sagði erfitt að segja til um það af nákvæmni en það mætti teljast líklegt.

Gosið í Gjálp 1996

Segja má að nokkur undanfari hafi verið fyrir eldgosið í Gjálp, um tíu kílómetrum norðan Grímsvatna, í september árið 1996, fjórða mesta eldgosi 20. aldar á Íslandi. Í febrúar það ár varð hrina jarðskjálfta í Hamrinum, rétt við Grímsvötn og í apríl hljóp Skeiðará. Skaftárhlaup varð svo í ágúst en að morgni 29. september 1996 hófst óvenjuleg jarðskjálftahrina í Bárðarbungu. Jarðskjálftafræðingar stigu þá fram og spáðu því að gos gæti verið í aðsigi. Stóð hrinan fram á kvöld hinn 30. september en þá dró skyndilega úr skjálftum en stöðugur órói hófst. Markaði óróinn upphaf eldgoss og í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins 30. september var gefin út viðvörun um að eldgos væri yfirvofandi í sprungu undir jöklinum milli Bárðarbungu og Grímsvatna. Hinn 2. október hófst svo öskugos þegar gosið náði upp í gegnum jökulhelluna.

Fyrstu fjóra dagana var kraftur eldgossins mestur og talið að það hafi brætt um hálfan kílómetra af ís á dag. Í grein sinni í Morgunblaðinu í nóvember 1997 benda vísindamennirnir Freysteinn Sigmundsson, Magnús Tumi Guðmundsson og Helgi Björnsson á að þetta magn hafi verið svipað og jarðhitasvæðið í Grímsvötnum bræðir á tveimur árum. Náði gosmökkurinn oftast í 4-5 km hæð en hæst fór hann í 9 km hæð hinn 3. október.

"Öskufalls gætti svo til alls staðar á jöklinum en lítið utan hans. Athyglisvert er að þrátt fyrir að Gjálpargosið sé með stærri gosum á 20. öld á Íslandi, er rúmmál ösku sem barst upp á yfirborð jökulsins lítið, varla meira en 1-2% af heildarmagni efnis sem upp kom í gosinu. Svo til allt efnið storknaði og varð eftir undir jöklinum og myndar þar nú fjallshrygg á botni hans," sögðu Freysteinn, Magnús Tumi og Helgi í fyrrnefndri grein sinni.

Talið er að eldgosinu í Gjálp hafi lokið að kvöldi til hinn 13. október 1996 en tveimur dögum áður var farið að draga úr kraftinum. Hlaup kom svo úr Grímsvötnum nokkrum vikum síðar.

Jólagos árið 1998

Rúm tvö ár liðu til næsta goss í Grímsvötnum, í desember árið 1998. Gaus þá á sama stað og árin 1934 og 1938. Á nokkrum skjálftamælum sást órói 17. desember og aðfaranótt 18. desember hófst jarðskjálftahrina, nánar tiltekið klukkan hálffjögur um nóttina. Um sex tímum síðar minnkaði virknin og hófst þá stöðugur órói, sem endaði með að eldgos braust út þá um morguninn. Þegar gosmökkurinn varð mestur náði hann í um 10 km hæð og sást víða um land. Varð vart við lítils háttar öskufall víða um land. Ekki var talin hætta á hlaupi úr Grímsvötnum svo ógnað gæti mannvirkjum á Skeiðarársandi.

Í Morgunblaðinu á Þorláksmessu 1998 var rætt við Magnús Tuma Guðmundsson, eftir að hann hafði ásamt fleirum flogið yfir umbrotasvæðið 22. desember. Sagði hann öskuuppstreymi ekki hafa verið mikið, gosið hefði ekki verið öflugt en sést til sprenginga í stórum gíg. Þeir hefðu séð móta fyrir gígbörmum. Hafði askan borist um allan jökul, snjór þakti sunnanverðan jökulinn en aska lá yfir Bárðarbungu og öllum norðvestanverðum jöklinum.

Eldgosið fjaraði svo út síðustu daga ársins 1998.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert