Djúpur áll þar sem áður var þurrt

Svo mikið hafði vaxið í Núpsvötnum í gærmorgun að algjörlega ófært var orðið að loftpressu sem brúarflokkur Vegagerðarinnar hafði skilið eftir á sandaurum undir brúnni kvöldið áður. Því var ekki annað hægt en að hífa pressuna upp á brúna og gekk það vel, að sögn Kristjáns Þórðarsonar aðstoðarverkstjóra.

Brúarflokkurinn hefur frá því á mánudag í liðinni viku unnið að viðgerðum á brúnni en brúargólf hennar skemmdist mikið í fárviðri sem gekk þar yfir. Kristján segir að það hafi verið hálfgerður aulaskapur að skilja pressuna eftir þegar vinnu lauk á mánudagskvöld. Aurarnir undir brúnni hefðu þó átt að vera öruggur staður ef ekki hefði vaxið í ánni.

Þegar brúarflokkurinn kom á staðinn um klukkan 7.30 í gærmorgun var kominn djúpur áll austast undir brúnni, þar sem daginn áður hafði verið þurrt, og gjörsamlega ófært að aka að pressunni. Kristján var látinn síga niður að pressunni með lyftarabómu. Hann festi síðan keðjur í pressuna og voru þau síðan bæði hífð upp á brúna. Þegar Morgunblaðið ræddi við Kristján í gær hafði vatnsborðið í Núpsvötnum ekki hækkað síðan um morguninn og ekki hafði flætt yfir þann stað sem pressan stóð.

Kristján sagði að stefnt væri að því að viðgerðum á brúnni yrði að mestu lokið í gærkvöldi, e.t.v. yrði einhver smávegis frágangur eftir. Aðspurður sagðist hann engar áhyggjur hafa af gosinu í Grímsvötnum og tilheyrandi hættu á hlaupi í jökulám. "Þá myndum við nú vinna fáa daga í ári ef við ætluðum að hafa áhyggjur af því," sagði hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert