Sigmundur Sæmundsson fór við þriðja mann á jeppa upp að gosstöðvunum í Grímsvötnum og varð vitni að því þegar gossprungan færði sig til vesturs um miðjan dag í gær.
Urðu þeir að forða sér í skyndi er sprungurnar opnuðust og heyrðu þeir hnullunga falla niður allt í kringum sig. "Þetta virkaði eins og skrímsli sem át sig upp brekkuna. Hreint ótrúleg upplifun," sagði Sigmundur við Morgunblaðið í gærkvöldi, er hann var á hægfara heimleið niður sprunginn og blautan Tungnaárjökul.
Hann sagði eldgíginn vera á sömu slóðum og félagar hans slógu upp tjaldbúðum á fyrir réttum fjórum mánuðum. Af þeim sökum hefði aðkoman verið mun ógnvænlegri. Í gær voru þremenningarnir komnir að gosstöðvunum um tvöleytið. Sigmundur sagði lítið hafa verið að sjá fyrsta klukkutímann annað en hvítan strók með gufusprengingum. Síðan hefðu sést brúnir og svartir strókar og kögglar þeyst út um allt með tilheyrandi eldingum og sprengingum.
"Þetta jókst stig af stigi en síðan kom önnur pása í hálftíma eða svo. Síðan breyttist gosið til muna, færðist til vesturs frá vestara horni Grímsvatna og klifraði í raun upp brekkuna frá vötnunum og í átt að okkur. Félagi minn var úti að pissa og það var bara "inn með vininn" og við spóluðum í burtu," sagði Sigmundur og viðurkenndi að hafa verið orðinn skelkaður á þessum tímapunkti. Mest hefði hann verið hræddur um að fá hnullung ofan á bílinn. Eftir á að hyggja hefðu þeir sýnt gáleysi með því að fara þetta nærri gígnum. Aðstæður hefðu í fyrstu verið svo sakleysislegar að þeir hefðu ekki talið sig vera í hættu.