Virkni í Grímsvötnum er minni þessa stundina og er einnig orðin hviðukennd eins og gerist í Grímsvatnagosum auk þess sem hlaup í Skeiðará virðist vera í rénun. Af þessum ástæðum hefur samhæfingarstöð almannavarna verið lokað í bili og bakvakt almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra hefur tekið við eftirlitshlutverki almannavarna. Lögreglustjórar í Vík í Mýrdal og á Höfn í Hornafirði hafa verið upplýstir um þessa ákvörðun.
Í tilkynningu kemur fram að öllu óbreyttu verður vegurinn um Skeiðarársand opinn í nótt en vegfarendur eru hvattir til að sýna ítrustu varkárni á ferð sinni um sandinn.