Skeiðarárhlaupið virðist hafa náð hámarki í gær miðað við niðurstöðu rennslismælingar vatnamælingamanna við Skeiðará í gærkvöldi. Samkvæmt fyrstu úrvinnslu þeirra var rennslið í gærkvöldi um 2.600 rúmmetrar á sekúndu (m
Efnagreining hlaupvatnsins sýndi að vatn frá gosstöðinni í Grímsvötnum var komið fram í Skeiðará um 12 klukkustundum eftir upphaf gossins. Þá könnuðu vatnamælingamenn stöðu mála í Gígju og Núpsvötnum í gær. Rennsli þeirra reyndist ekki tiltakanlega mikið, en niðurstöður leiðnimælinga bentu til þess að talsvert hátt hlutfall hlaupvatns væri í báðum ánum.
Hlaupið í Skeiðará er þegar orðið mun stærra en hlaupið sem kom í ána í febrúar árið 1999. Síðdegis í gær var rennsli Skeiðarár komið í tæplega 2.900 m
Síðdegis í gær var vatnshæð á sjálfvirkum mæli í Skeiðará komin upp í 2,80 metra, en fyrir hlaup var mælirinn í u.þ.b. 0,60 metra hæð.
Gunnar sagði í gærdag að leiðni í ánni hefði aukist jafnt og þétt. Hann sagði að vatn flæddi undir mestalla brúna yfir Skeiðará. Dálítið væri um jaka í ánni en ekki mikið.
Árni Snorrason, vatnamælingamaður hjá Orkustofnun, fór í eftirlitsflug Flugmálastjórnar síðdegis í gær ásamt fleiri vísindamönnum. Hann sagði vatnsmagnið í hlaupinu hafa aukist stig af stigi og álíka hratt og árið 1999. Það gæti einnig minnkað hratt aftur. Í fyrstu mælingum nú hefði rennslið verið 600 rúmmetrar á sekúndu, um 1.500 rúmmetrar á mánudag og tæpir 3.000 rúmmetrar á sekúndu síðdegis í gær.