Dregið hefur verulega úr gosinu í Grímsvötnum

Eldgos í Grímsvötnum í Vatnajökli.
Eldgos í Grímsvötnum í Vatnajökli. mbl.is

Ragnar Stefánsson jarðskjálftafræðingur segir að dregið hafi verulega úr gosvirkni í Grímsvötnum í nótt og samkvæmt mælum er það nánast að líða undir lok. Hann útilokaði þó ekki að kraftur gæti komið aftur í gosið. Eins og staðan er núna kæmu upp stöku gusur og næðu þær upp í aðeins 100 til 200 metra hæð.

Ragnar sagðist ekki reikna með að mikil aska bærist út í andrúmsloftið því krafturinn væri svo lítill í gosinu. „Þetta er orðið afskaplega lítið gos sem stendur. Frá því seinni partinn í gær hefur þetta verið nánast ekkert,“ sagði Ragnar við Fréttavef Morgunblaðsins.

Hann sagði að samkvæmt mælingum hefur enn hægt á gosvirkninni í nótt og í morgun. „Einhverjar gusur kom upp úr þessu, en það er væntanleg að syngja sitt síðasta, þó svo að of snemmt sé að tala um það því það getur alltaf tekið sig upp aftur,“ sagði Ragnar.

Hann sagðist reikna með að farið yrði í könnunarflug yfir gosstöðvarnar í Grímsvötnum í dag, en búist er við ágætis skyggni þar yfir í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert