Þotuflug í íslenska flugstjórnarsvæðinu komið eðlilegt horf

Flugumferð í íslenska stjórnsvæðinu er komin í eðlilegt horf.
Flugumferð í íslenska stjórnsvæðinu er komin í eðlilegt horf. mbl.is

„Flugumferð á Norður-Atlantshafinu er komin í eðlilegt horf eftir gos, flugbannsvæðið er komið norður fyrir 73 gráðu og þar er sáralítil umferð hvort eð er,“ segir Guðmundur Haraldsson, varðstjóri í flugstjórnarmiðstöðinni á Reykjavíkurflugvelli en þaðan er stjórnað flugumferð á norðanverðu Norður-Atlantshafi.

Samkvæmt frétt frönsku fréttastofunnar AFP aflýsti flugfélagið KLM „dúsínum“ flugferða í öryggisskyni vegna reykmakkarins og ösku frá eldstöðinni í Grímsvötnum á Vatnajökli. Hafi hundruð farþega fyrir vikið orðið strandaglópa á Schiphol-flugvellinum í Amsterdam. Stórum hluta þeirra hafi verið komið fyrir á hótelum í nágrenni vallarins en um 400 hafi orðið að hvílast næturlangt á dýnum í salarkynnum flugvallarins, eins og segir í frétt AFP.

Í frétt bresku fréttastofunnar Press Association er haft eftir talsmanni KLM, Frank Houben, að vegna innri starfsreglna félagsins hafi 59 flugferðum verið aflýst í gær vegna öskuskýs af völdum Grímsvatnagossins er borið hafi inn yfir Evrópu. Hafi það náð allt austur til Svartahafs. „Við gátum hvorki flogið fyrir ofan skýið eða neðan,“ segir Houben og kveðst ekki vita hvort önnur flugfélög hafi einnig aflýst ferðum á norður-evrópskum leiðum.

Guðmundur sagði þessa frétt hljóma heldur ótrúlega í sínum eyrum en sagðist þó ekki hafa yfirlit yfir ferðir KLM-félagsins á Atlantshafinu í gær. Þó taldi hann að í mesta lagi hafi nokkrum ferðum verið aflýst í gær, ef um slíkt hafi verið að ræða.

„Bannsvæðið hefur færst jafnt og þétt norður á bóginn og umferð í þotumhæðum er komin í eðlilegt horf, það er fyrst og fremst innanlandsflugið sem gosið setur enn úr skorðum,“ sagði Guðmundur við Fréttavef Morgunblaðsins (mbl.is).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert