Gosið í Grímsvötnum er nú óðum að ganga niður og sjást nú einungis gufubólstrar í gosstöðvunum og einstaka sprenging. Gosið var gjóskugos frá upphafi til enda og náði ekki að breytast í hraungos.
Freysteinn Sigmundsson hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands segir að gosið hefði þurft að byggja sig upp úr vatninu til að breytast í hraungos en mikill ís og vatn olli því að svo fór ekki. Myndarlegur gígur myndaðist í gosinu og verður tíminn að leiða í ljós hversu lengi hann mun sjást áður en ís skríður að gosstöðvunum aftur. Fyrirsjáanlegt er að talsverður jarðhiti verður við gíginn næstu árin, jafnvel fram að næsta gosi, sem gæti komið innan nokkurra ára ef miðað er við hve stutt hefur verið á milli gosa síðan 1996.
"Það verður hægt að mæla magn kviku sem streymir inn í kvikuhólfið með nákvæmum mælingum," segir Freysteinn. "Matið sem gert var fyrir ári byggðist á nákvæmum landmælingum og á sama hátt komum við til með að fylgjast með jarðskorpuhreyfingum í Grímsvötnum á næstu misserum til að meta hversu hratt bergkvikan mun streyma inn í kvikuhólf Grímsvatna."