Eldgosi í Grímsvötnum lokið

Nýr sigketill hefur myndast suðaustan við Grímsfjöll.
Nýr sigketill hefur myndast suðaustan við Grímsfjöll. mbl.is/Magnús Tumi Guðmundsson

Eldgosi í Grímsvötnum er lokið. Að sögn Magnúsar Tuma Guðmundssonar jarðeðlisfræðings, sem flaug yfir gosstöðvarnar í gær, er líklegt að gosinu hafi lokið á föstudagskvöld eða snemma á laugardegi.

Virkni var ennþá á gosstöðvunum á föstudag en ekki er lengur unnt að greina óróa frá bakgrunnsgildum á línuriti Veðurstofunnar. Goslok verða skoðuð betur á næstu dögum. Að sögn Magnúsar Tuma gátu jarðvísindamenn í fyrsta sinn kannað allt svæðið í gær og kom þá í ljós að nýr sigketill hefur myndast suðaustan við Grímsfjöll, á að giska 10-20 metra djúpur og hálfur kílómetri í þvermál. "Hann er nokkurn veginn á þeirri leið sem vanalega er farin úr austri á Grímsfjall og hefur myndast í umbrotunum. Við höfðum séð óljósar sprungur en nú staðfest að þetta er sigketill," segir Magnús Tumi. Ekki er vitað hvernig sigketillinn myndaðist en talið er að það hafi gerst snemma í gosinu. Að sögn Magnúsar Tuma er ekki ráðlegt að ferðamenn fari á Grímsfjall á næstunni úr austri nema í góðu skyggni. Þá náðu jarðvísindamenn myndum af upptökum Skeiðarár í Grímsvötnum en vatn rennur meðfram Grímsfjalli og myndar foss. "Þarna rennur yfirleitt ekki vatn en núna sjáum við það," segir Magnús Tumi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert