Samninganefnd grunnskólakennara lagði fram tilboð til lausnar kjaradeilu kennara og sveitarfélaga á fundi hjá ríkissáttasemjara í kvöld. Fram kom í fréttum Sjónvarpsins að í því tilboði væri gert ráð fyrir mun meiri launahækkunum en fólust í miðlunartillögu ríkissáttasemjara, sem kolfelld var í atkvæðagreiðslu kennara. Þá er gert ráð fyrir að samningurinn gildi út árið 2007. Óvíst er hvaða viðtökur tilboðið fær hjá Launanefndinni.
Fari svo að tilboðinu verði hafnað hefst verkfall grunnskólakennara á miðnætti, en hins vegar verði því tekið er talið líklegt að samninganefnd kennara fresti verkfalli.
Deiluaðilar hafa setið á fundi í húsakynnum ríkissáttasemjara síðan klukkan sjö í kvöld.