Kristinn Björnsson, fyrrverandi forstjóri Skeljungs, segir að það veki athygli sína og margra annarra, að í úrskurðarorðum með skýrslu samkeppnisráðs leggi stofnunin blessun sína yfir áframhaldandi starfsemi Olíudreifingar hf. (ODR )
Kristinn segir í viðtali sem birtist í Morgunblaðinu í dag að ekki séu gerðar kröfur um að ODR verði skipt upp eins og eðlilegast væri. "Ég geri ráð fyrir því að ástæða þess sé sú að á sínum tíma þegar Olíufélagið fór og lýsti sig reiðubúið að aðstoða Samkeppnisstofnun við rannsókn þessa máls, sem hófst með húsleitinni hjá félögunum 2001, þá var sú aðstoð boðin að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Ég held að á meðal skilyrðanna hafi verið að ODR fengi að starfa áfram. Ég held að með stofnun ODR hafi skapast, með blessun Samkeppnisstofnunar, kjöraðstæður fyrir þessi tvö félög, Esso og Olís, til víðtækrar samvinnu," segir hann. Samkeppnisstofnun hafi sömuleiðis gert mistök er hún samþykkti og heimilaði stofnun Olíudreifingar hf. (ODR) árið 1995. ODR er sameiginlegt innflutnings- og dreifingarfélag Olíufélagsins og Olís.
Kristinn segist í viðtalinu skilja reiði fólks í þjóðfélaginu vegna skýrslu samkeppnisráðs um olíufélögin. Hins vegar sé í skýrslunni í mörgum tilvikum um rangar niðurstöður að ræða og þar af leiðandi séu dregnar rangar ályktanir.
Kristinn lýsir furðu sinni á umræðu sem upp hafi komið vegna eldsneytisverðs til skipa í Færeyjum, sem fjallað er um í skýrslu samkeppnisráðs. Hann segir alveg ljóst að tilgangurinn með þrýstingi á olíufélagið Statoil hafi ekki verið sá að eldsneytisverðið í Færeyjum hækkaði, heldur sá að lækka verðið til Íslands, enda hafi verðið til skipa í Færeyjum verið orðið lægra en innkaupsverðið átti að vera til Skeljungs.
Kristinn gagnrýnir í viðtalinu starfsemi flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara, sem hann segir að sé lögbundinn samvinnu- og samráðsstaður fyrir íslensku olíufélögin. Kristinn segist hafa staðið fyrir því sem forstjóri Skeljungs á sínum tíma að skera upp herör gegn flutningsjöfnunarsjóði en allt hafi komið fyrir ekki. Sjóðurinn starfi enn, forstjóri Samkeppnisstofnunar sé stjórnarformaður hans og stjórnarfundir séu haldnir í Samkeppnisstofnun.
"Þar eru menn að skiptast á leyndarmálum og upplýsingum um fyrirtækin einfaldlega vegna þess að þeim ber að gera það samkvæmt fyrirmælum í lögunum," segir Kristinn.