Haldið uppi fullu skólastarfi í Reykjavík á morgun

Mörg börn snéru heim aftur úr skólum sínum í morgun …
Mörg börn snéru heim aftur úr skólum sínum í morgun vegna þess að kennarar mættu ekki til starfa. mbl.is/Kristinn

„Það er eindreginn vilji og ætlan skólastjóra í Reykjavík að halda uppi fullu skólastarfi á morgun,“ sagði Gerður G. Óskarsdóttir, fræðslustjóri í Reykjavík, eftir fund með skólastjórum í Reykjavík, sem lauk fyrir stundu. Gerður segir að skólastjórar viti ekki hvort allir kennarar mæti en þeir ætli að nýta starfsfólk skólanna og þá foreldra sem boðið hafi fram aðstoð sína við kennslu á morgun, gerist þess þörf. Ekki verður skólastarf í Öskjuhlíðar- og Safamýrarskóla á morgun.

Gerður segir að fram hafi komið á fundinum að skólastjórar hafi þegar haft samband við flesta starfsmenn sem ekki mættu í dag og þeir hefðu hugsað sér að ljúka í kvöld við að hringja í þá sem ekki komu til starfa. „Í sumum skólum ætluðu allir að mæta, í öðrum ekki alveg allir, en þar átti samt að halda uppi fullu skólastarfi,“ segir Gerður.

Gerður segir að þetta eigi við um almennu skólana. Kennarar í Öskjuhlíðar- og Safamýrarskóla, sem mættu til vinnu í dag, hafi hins vegar ákveðið að mæta ekki til starfa á morgun og verður því ekki starfsemi þar á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert