Allt útlit er fyrir að sækja þurfi þorra þess vinnuafls sem starfa mun við byggingu Fjarðaáls á Reyðarfirði til útlanda, þar sem lítill áhugi er meðal Íslendinga á störfunum.
Að sögn Glúms Baldvinssonar, nýráðins upplýsingafulltrúa Bechtel á Íslandi, sem er aðalverktaki við byggingu Fjarðaáls, var upphaflega gert ráð fyrir að stór hluti vinnuafls við byggingu álversins yrði íslenskur. Reiknað er með að 1.500-1.800 manns muni starfa við álversframkvæmdirnar þegar mest lætur 2006.
Jarðvegsframkvæmdir við álverið eru hafnar og gert ráð fyrir að álverið verði gangsett í apríl 2007, gangi áætlanir eftir. Að sögn Glúms eru ríflega 100 Íslendingar nú þegar að störfum við jarðvegsframkvæmdir í tengslum við álverið og við byggingu starfsmannaþorps, á vegum ýmissa undirverktaka.