Íslensk erfðagreining dæmd til að borga hugbúnaðarfyrirtæki 5,3 milljónir

Íslensk erfðagreining (ÍE) hefur verið dæmd í Hæstarétti til að borga hugbúnaðarfyrirtæki rúmar 5,3 milljónir með vöxtum og dráttarvöxtum auk 550.000 króna í málskostnað í héraði og fyrir hæstarétti.

Fyrirtækið tók að sér hugbúnaðargerð og tengd verkefni fyrir ÍE. Í samningi þeirra var meðal annars kveðið á um vinnu við nánar skilgreind verkefni í 2.400 klukkustundir, en að því loknu mátti segja upp samningnum fyrirvaralaust.

Eftir að umræddu marki var náð sendi ÍE tilkynningu til hugbúnaðahússins þar sem kom fram að ekki yrði af frekari kaupum á þjónustu af því „að svo stöddu“. Segir Hæstiréttur að engu að síður hafi verið ákveðið að hugbúnaðarfyrirtækið ynni áfram að verkefnum fyrir ÍE.

Í kjölfarið hafi risið ágreiningur um skil á verkum, þar á meðal um svonefnda skjölun, og uppgjör vegna þeirra. Talið var ósannað að hugbúnaðafyrirtækið hafi lofað að ljúka við umrædda skjölun.

Jafnframt var ekkert talið komið fram um að hugbúnaðarfyrirtækið hafi haldið eftir gögnum sem ÍE ætti rétt til. Meðal annars í ljósi ákvæða í samningi aðila um verkskil við uppsögn var það talið standa ÍE nær að tryggja sér sönnun um að félagið hafi aðeins óskað eftir sumum verkefnunum sem hugbúnaðafyrirtækið skilaði, en ekki öðrum.

Það hafi ÍE ekki gert og þess vegna bæri fyrirtækinu að standa hugbúnaðarfyrortækinu skil á greiðslu fyrir hin umdeildu verk, en ekkert hafi komið fram annað en að þau hafi verið fullnægjandi. Staðfesti Hæstiréttur dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá í febrúar sl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka