Dæmdur í 3½ árs fangelsi fyrir fíkniefnainnflutning

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt 39 ára gamlan karlmann í 3½ árs fangelsi fyrir að flytja inn 981 gramm af amfetamíni og 993,5 grömm af kókaíni. Maðurinn, sem heitir Sigurður Rúnar Gunnarsson, hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því í maí þegar málið kom upp.

Gerð var leit á Sigurði þegar hann kom með flugvél frá Kaupmannahöfn 24. maí og fannst á honum hvítt efni í átta pökkum. Viðurkenndi Sigurður, að hafa flutt tæpt kíló af kókaíni og tæpt kíló af amfetamíni frá Amsterdam en efnið hafi verið ætlað til söludreifingar hér á landi.

Fyrir dómi hélt Sigurður því fram að innflutningur efnanna hafi ekki verið hugsaður í hagnaðarskyni fyrir sig. Hann játaði þó að hafa tekið við greiðslum, sem námu um 2,5 milljónum króna, en sagði að þær hafi að hluta verið til greiðslu kostnaðar hans vegna ferðanna en að öðru leyti hafi hann litið á þær sem lán til sín.

Héraðsdómur segir, að þegar litið sé til þess um hvaða fjárhæðir um var að tefla, hvernig fjárhag ákærða var háttað á þessum tíma og að ekki virðist hafa verið gengið eftir greiðslukvittunum af hálfu greiðandans, sé það mat dómsins að skýringar Sigurðar að þessu leyti séu ekki trúverðugar. Með hliðsjón af þessu þyki ekki varhugavert að telja sannað að innflutningur hans á fíkniefnunum hafi verið ákveðinn með hagnað í huga.

Fram kemur í dómnum, að Sigurður hefur áður hlotið tvo refsidóma, þar á meðal 15 mánaða fangelsi fyrir fjárdrátt og skjalafals.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert