Útgjaldaauki TR vegna þunglyndislyfja 8% milli ára

Útgjaldaauki Tryggingastofnunar ríkisins vegna þunglyndislyfja fyrir mánuðina janúar til nóvember 2004 er um 8% miðað við sama tímabil árið á undan.

Af þunglyndislyfjum vega tveir lyfjaflokkar þyngst eða um 97% af kostnaðinum. Annars vegar er um að ræða svonefnda sérhæfða serótónín endurupptökuhemla og hins vegar serótónín noradrenalín endurupptökuhemlar en hækkun nemur 61% í fyrrnefnda lyfjaflokknum og 36% í hinum.

Útgjaldaaukning TR stafar aðallega af aukinni notkun lyfja í þessum tveimur flokkum en ekki er um verðhækkanir að ræða nema í einum lyfjaflokki.

Notkun á paroxetín eykst þrátt fyrir viðvörun
Á heimasíðu Lyfjastofnunar er nú að finna viðvörun um notkun lyfsins paroxetíns, sem tilheyrir lyfjaflokki fyrir börn og unglinga vegna sjálfsvígshugsana.

Síðastliðið sumar sendu landlæknisembættið og Lyfjastofnun dreifibréf til lækna vegna mikillar umræðu víða um heim um mögulega hættu við notkun umrædds lyfjaflokks hjá börnum og unglingum. Á heimasíðu TR segir, að í ljósi þessa hafi TR borið saman notkun þunglyndislyfja á milli áranna 2003 og 2004 eftir aldursbili. Notkun í aldurshópnum 15 til 19 ára fyrstu 11 mánuði ársins jókst miðað við sama tímabil árið á undan, notkun í aldurshópnum 5-9 ára minnkaði en breyting var í aldurshópunum 10-14 og 1-4 ára.

Þegar heildarnotkunin þunglyndislyfja er greind nánar niður fyrir aldurshópinn 19 ára og yngri sást hins vegar að notkunin í umræddum lyfjaflokki, sem varað hefur verið við, jókst en notkun á öðrum þunglyndislyfjum minnkaði.

Tryggingastofnun

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert