Báru lík úr stórmarkaði upp á pallbíla

Friðrik Árnason prentsmiður er í hópi átta Íslendinga á Patong-strönd á Phuket-eyju á Taílandi sem varð illa úti í flóðbylgjunni á sunnudagsmorgun. Fram kom í Mbl. á mánudag að það varð þeim til happs að þau sváfu lengur þann morgun og voru ekki komin niður á strönd þegar flóðbylgjan reið yfir og skolaði öllu í burtu sem fyrir varð.

Að sögn Friðriks er hótelið þar sem þau dvelja í eins kílómetra fjarlægð frá ströndinni, en svo mikill var kraftur flóðbylgjunnar að hún "staðnæmdist við anddyri hótelsins" eins og Friðrik lýsir því. Að sögn hans hefur hópurinn það ágætt eftir atvikum.

Ennþá að bera út lík

"Við fórum [í fyrradag] að skoða ströndina, öll strandgatan og ströndin sjálf eru bara gjörsamlega farnar. Við horfðum á þar sem verið var að dæla vatni út úr kjallara stórmarkaðar á ströndinni, sólarhring eftir flóðið, og líkin voru borin út og upp á pallbíla. Þeir voru enn þá að dæla upp úr kjallaranum síðast þegar ég vissi og enn þá að bera út lík," segir Friðrik.

Um daginn örlagaríka, sl. sunnudag, segir hann: "Við vissum raunar ekkert hvað var í gangi af því að rafmagnið fór af mjög fljótt þannig að það var ekkert sjónvarpssamband."

Fyrsta daginn héldu allir hótelgestir kyrru fyrir á hótelinu. "Þetta var tólf tíma "stopp" án rafmagns, við máttum ekki fara út, áttum helst að vera við svalir til að geta hlaupið út, og vorum alltaf að bíða eftir eftirskjálfta og flóði sem kom sem betur fer ekki. Þegar fór að líða á daginn fengum við SMS skilaboð að heiman um hvað í rauninni var að gerast. Við vorum ótrúlega heppin."

Að sögn Friðriks hækkar tala látinna stöðugt á Phuket-eyju og enn þá er unnið að því að dæla vatni úr kjöllurum húsa.

Landbrúin umflotin vatni

Íslenski hópurinn á bókað flug frá Phuket til Bangkok 6. janúar en ætlar að freista þess að komast þaðan fyrr. Þaðan halda þau áfram ferðalaginu en þau áforma að koma til Íslands 15. janúar.

Um 13 tíma akstur er til Bangkok frá Phuket-eyju. Að sögn Friðriks höfðu þær fréttir hins vegar borist að landbrúin til Pukhet sé umflotin vatni og þarf því að stóla á flugsamgöngur sem hafa gengið úr skorðum.

Íslendingarnir notuðu gærdaginn til að skoða sig um á helstu ferðamannastöðum á Phuket-eyju en að öðru leyti er lítið um að vera, að sögn Friðriks.

Hann segir flesta hótelgestina þar sem þau dvelja hafa skilað sér aftur en um tíma var óttast um afdrif einhverra. Verst úti urðu hótel niðri við ströndina og þar er manntjónið mest.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert