Biskup hvetur presta til að minnast fórnarlamba hamfaranna

Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, hefur sent prestum Þjóðkirkjunnar bréf og hvatt til þess að fórnarlamba hamfaranna verði minnst í guðsþjónustum um áramótin.

Í bréfi biskups segir, að inn í birtu og fögnuð hátíðanna hafi borist fréttir af hinum ægilegu náttúruhamförum í Asíu. Engin leið sé að gera sér í hugarlund þá ægikrafta sem þar voru að verki og þá skelfingu og eyðileggingu, örvæntingu og sorg sem það hafi leitt af sér.

„Ljóst er að hamfarirnar hafa valdið miklu manntjóni og gífurlegri eyðileggingu. Hjálparstarf kirkjunnar er í sambandi við samstarfsaðila sína á þessum svæðum, flóðbylgjan olli til dæmis miklum usla á strönd Indlands þar sem okkar fólk er að störfum við að leysa börn úr ánauð. Ég vil biðja presta að minnast þessara atburða í guðsþjónustum um áramótin, hvetja til þess að gefa fjármuni til hjálparstarfs og biðja fyrir þeim sem eiga um sárt að binda," segir síðan í bréfinu sem Biskupsstofa hefur birt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert