Ekki heyrst frá 10 Íslendingum á flóðasvæðunum í Asíu

Enn hefur ekki heyrst frá 10 Íslendingum sem talið er að séu á flóðasvæðum í Asíu, að sögn Péturs Ásgeirssonar, skrifstofustjóra í utanríkisráðuneytinu. Þar af eru fimm á eyjunni Balí í Indónesíu og fimm á Pattaya-Bangkok-svæðinu. Frá því í gærkvöldi hafa tveir Íslendingar á þessum slóðum gert vart við sig. Einn var kominn til Indlands, að sögn Péturs og hinn var á Pattaya-svæðinu. Pétur segir að áfram verði haldið að grennslast fyrir um þá sem ekki er vitað hvar eru niðurkomnir.

„Við viljum fá upplýsingar um allt fólkið á listanum. Ef fólkið hefur verið á þeim svæðum sem það var síðast þegar vitað var, þá er allt í lagi með það. En ástæðan fyrir því að við leggjum enn áherslu á að fá fréttir af þessu fólki er að ferðamenn eru jú að ferðast og fólkið getur svosem hafa farið hvert sem er,“ segir Pétur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert