Í óvissu um ættingja sína

Árný Aurangasri Hinriksson, kennari við Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu á Höfn í Hornafirði, er ættuð frá Sri Lanka en hefur búið lengi hér á landi. Hún sagðist ekki vita hve margir af ættingjum hennar hefðu farist í flóðbylgjunni á dögunum.

Árný sagðist vera í daglegu sambandi við fjölskyldu sína á Sri Lanka. Níræð móðir hennar og systir voru fjarri sjó og biðu ekki skaða, en þær eiga hús í Colombo, nálægt þar sem 20 þúsund manns misstu heimili sín, að sögn Árnýjar. Systurdóttir Árnýjar er nýgift framkvæmdastjóra lúxushótels á Maldíveyjum og fór þangað deginum áður en flóðbylgjan færði eyjarnar að miklu leyti í kaf.

"Við höfðum mjög miklar áhyggjur af henni því Maldíveyjar fóru undir vatn," segir Árný. "Það náðist ekki samband því fjarskipti lögðust af. Þegar dagur var liðinn sendi hún SMS-skeyti og lét vita af sér. Hún sagði að 1. hæð hótelsins væri undir vatni, en að þau hefðust við á 2. hæð og hefðu nógan mat. Ég veit ekkert um skyldfólk mitt sem hefur unnið á lúxushótelum á suðurströndinni í Galle, Matara og Tangalle sem urðu illa úti. Ég á frænda sem rekur gistihús þarna, en það er ekki mögulegt að hafa samband við þetta fólk.

Frænka mín, sem er lögfræðingur, býr í Matara og ég á marga ættingja og vini í Galle. Mágkona mín á aldraða móður og bræður í Matara. Hún hefur ekki náð neinu sambandi við þau. Þangað er hvorki símasamband né vegasamband, því vegurinn sópaðist í burt. Ég hringi daglega en þau hafa engar fréttir að færa."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert