16 þúsund manns hafa hringt í söfnunarsíma Rauða krossins

Björgunarmenn með lík fórnarlambs hamfaranna á Khao Lak ferðamannastaðnum í …
Björgunarmenn með lík fórnarlambs hamfaranna á Khao Lak ferðamannastaðnum í Taílandi í dag. AP

Rúmlega 16 þúsund manns hér á landi hafa hringt í söfnunarsíma Rauða krossins undanfarna daga en féð sem safnast verður nýtt til hjálparstarfs á vegum samtakanna á hamfarasvæðunum í Asíu. Að sögn Þóris Guðmundssonar upplýsingafulltrúa Rauða krossins, hafa um 17 milljónir safnast í gegnum söfnunarsímann, en heildarfjárframlög til Rauða krossins síðustu daga nema um 37 milljónum króna.

Ríkisstjórn Íslands, Pokasjóður verslunarinnar og Íslandsspil hafa látið Rauða krossinn hafa 5 milljónir króna vegna hamfaranna. Þá hefur Oddfellow afhent Rauða krossinum eina milljón króna. „Síðan hafa framlög verið að berast, bæði inn á bankareikning og með kreditkorti,“ segir Þórir.

Hann segir að söfnun Rauða krossins vegna hamfaranna haldi áfram, enda veiti ekki af. „Þetta verður líklega umfangsmesta hjálparstarf í sögunni, eða svo langt sem menn muna í það minnsta,“ segir Þórir. „Það þarf allt sem hægt er að gefa og það nýtist vel á hamfarasvæðunum,“ bætir hann við.

Söfnunarsími Rauða krossins vegna hamfaranna er 907-2020. Einnig er hægt að leggja inn peninga á eftirfarandi reikningsnúmer: 1151-26-12. Kennitala: 530269-2649.

Vefsíða Rauða krossins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert