Þrír starfsmenn Flugleiða sluppu við flóðbylgjuna á Maldív-eyjum: Fóru annað en ráðgert var

Þrír starfsmenn Flugleiða voru staddir á Maldív-eyjum í Indlandshafi í tengslum við leiguflug fyrir ítölsku ferðaskrifstofuna Neos, þegar flóðbygjan reið yfir eyjar og strendur við Indlandshaf sl. sunnudag.

Flóðbylgjan skall á eyjunum en það varð íslensku starfsmönnunum til happs að þeir gistu á annarri eyju en upphaflega stóð til og hún slapp að mestu við flóð.

Eyjan og hótelið sem áhöfnin gisti á heitir Fihaholhi, en upphaflega áttu starfsmenn Flugleiða að gista á annarri eyju í eyjaklasanum. Þar skoluðust hins vegar öll hús í burtu.

Að sögn Kristjáns Óskarsonar, flugstjóra hjá Flugleiðum, varð hann var við titring þegar klukkan var langt gengin í tíu um morguninn. Um klukkustund síðar hefði sjórinn tekið að rísa og flætt yfir neðri hæð tvílyfts gistihúss sem þau dvöldu á.

"Svo hvarf þetta aftur. Það var mikil óvissa, við vissum náttúrulega ekki hvað var að gerast. Við horfðum á þetta undur veraldar," segir Kristján, og segir að sér hafi helst dottið í hug að skilin milli flóðs og fjöru væru svona skörp. Hið rétta hafi síðar komið í ljós þegar farþegar tóku að fá SMS skilaboð með fréttum af skjálftanum.

"Sumir stóðu bara á skýlunni"

Að sögn Kristjáns brugðust ítölsk stjórnvöld hratt við fréttum af skjálftanum og sendu flugvél eftir ítölsku farþegunum. Daginn eftir hefðu farþegar snúið aftur til Ítalíu, mun fyrr en ráð var fyrir gert í upphafi. Að sögn Kristjáns höfðu margir farþeganna lent í flóðbylgjunni, slys urðu á fólki og eitthvert manntjón og "sumir stóðu bara á skýlunni" á flugvellinum í Mali enda hafði sjórinn skolað öllu burt. Einn maður hefði lýst því svo fyrir áhöfn að hann hefði verið í blaki með syni sínum og fleirum þegar flóðbylgjan skall á og hann rétt náð að grípa son sinn áður en sjórinn sogaði hann til sín.

Að sögn Kristjáns var fólki á eyjunni tjáð að von væri á annarri flóðbylgju í kjölfar eftirskjálfta. "Okkur var tjáð að flóðbylgjan væri í Mali, sem var norðan við okkur, og að hún ætti eftir að koma yfir okkur, 6-10 metra há. Maður beið eins og bjáni með myndavélina," segir hann. Kristján segist heppinn og þakklátur að hafa sloppið jafn vel og raun ber vitni. Önnur flóðbylgja lét aldrei á sér kræla.

Íslenskir starfsmenn Flugleiða voru með ítalskri áhöfn í för, sem fyrr segir. Frá Maldív-eyjum var flogið aftur til Ítalíu og þaðan fóru íslensku starfsmennirnir til Íslands.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert