Yfir 60 milljónir til neyðarhjálpar Rauða kross Íslands

Starfsmenn taílenska Rauða krossins aðstoða fólk á flóðasvæðum.
Starfsmenn taílenska Rauða krossins aðstoða fólk á flóðasvæðum.

Almenningur á Íslandi, stjórnvöld, fyrirtæki og félagasamtök hafa nú gefið samtals um 60 milljónir króna til neyðarhjálpar Rauða krossins á jarðskjálfta- og flóðasvæðum í Asíu. Hluta upphæðarinnar hefur þegar verið komið til Alþjóða Rauða krossins og nýtist til hjálparstarfs við afar erfiðar aðstæður, einkum á Sri Lanka og í Indónesíu.

Tveir sendifulltrúar Rauða kross Íslands hafa verið sendir á flóðasvæðin, einn til Sri Lanka og einn til Indónesíu. Fjöldi annarra er í viðbragðsstöðu.

Fram kemur á heimasíðu RKÍ, að í löndunum sem urðu fyrir flóðbylgjunni vinni hjálparstarfsmenn í kapp við tímann að koma matvælum, lyfjum, teppum og tjöldum til fólks sem í mörgum tilvikum hefur misst allt sitt. Fullhlaðnar flugvélar flytji hjálpargögn víðs vegar að úr heiminum en samgöngukerfi á skaðasvæðunum séu sums staðar að kikna undan álaginu við að koma hjálpargögnum frá flugvöllum áleiðis til þeirra sem á þurfa að halda.

Tala látinna er nú komin í 124.000. Þá slösuðust um 520.000 manns og allt að fimm milljónir manna þurfa á neyðaraðstoð að halda. Enn er gert ráð fyrir að þessar tölur muni hækka. Hjálparstarfið beinist einkum að Sri Lanka, Indónesíu, Indlandi og Maldíveyjum en einnig er verið að aðstoða í Taílandi, Malasíu og í löndum Austur-Afríku.

Í Indónesíu eru fimm sérhæfð neyðarteymi frá Alþjóða Rauða krossinum auk fjölda manns frá indónesíska Rauða krossinum. Afar erfitt er að flytja hjálpargögn til afskekktra bæja á norðanverðri Súmötru því vegir hafa skolast burt og fjarskipti eru að hluta í lamasessi. Björgunarsveitir hafa enn ekki komist til sumra bæja og þorpa sem urðu fyrir flóðinu.

Á Sri Lanka misstu hundruð þúsunda manna heimili sín og hafast margir þeirra við í samkomuhúsum og félagsheimilum, þar sem sjálfboðaliðar Rauða krossins eru meðal þeirra sem hlúa að þeim.

Á Taílandi hafa læknar, hjúkrunarfólk og annað starfsfólk Rauða krossins unnið að hjálparstörfum í sex héruðum frá fyrsta degi. Færanlegar læknastofur tælenska Rauða krossins eru á svæðinu, en í þeim er meðal annars hægt að framkvæma skurðaðgerðir. Herinn hefur í nokkrum tilvikum flutt hjálpargögn fyrir Rauða krossinn.

Á Indlandi er talið að um 10.000 manns hafi látið lífið. Hundruð þúsunda misstu heimili sín, þar af margir sem hafa fengið skjól í flóðvarnaskýlum Rauða krossins. Við suðurströnd Indlands er talið mikilvægast að koma í veg fyrir að farsóttir breiðist út. Talið er að um 10.000 manns hafi látist á Andaman og Nicobar eyjum, sem tilheyra Indlandi en eru beint norður af skjálftasvæðinu. Indverski Rauði krossinn hefur sent um tuttugu tonn af hjálpargögnum til eyjanna og 25 lækna

Enn er hægt að hringja í 907 2020 til að styðja hjálparstarfið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert