58 Svíar verða fluttir heim með íslensku vélinni

Friðrik Sigurbergsson fer yfir útbúnaðinn í íslensku flugvélinni í Bankok …
Friðrik Sigurbergsson fer yfir útbúnaðinn í íslensku flugvélinni í Bankok í morgun. mbl.is/Sverrir

Staðfest er, íslenska farþegaflugvélin, sem er á vegum íslenskra stjórnvalda í Bankok í Taílandi, mun á morgun flytja 18 legusjúklinga og 40 sjúklinga og ættingja þeirra, sem geta setið uppi. Verða því alls 58 manns fluttir til Svíþjóðar, að sögn Friðriks Sigurbergssonar, leiðangursstjóra Landspítala-háskólasjúkrahúss.

Þeir Friðrik og Poul Weber, ræðismaður Íslands í Taílandi, eru nú á leið á fund í sænska sendiráðinu í Bankok til að skipuleggja heimferðina. Gert er ráð fyrir að fyrstu sjúklingarnir komi í flugvélina klukkan 9 í fyrramálið að taílenskum tíma en brottför er áætluð klukkan 12.

Íslenska flugvélin kom til Bankok í morgun. Sex læknar og tólf hjúkrunarfræðingar frá LSH fóru héðan með flugvélinni en með í för eru einnig fulltrúi forsætisráðuneytisins, fulltrúi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, tveir fulltrúar frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og þrír frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert