Íslensk flugvél með lækna og hjúkrunarkonur lent í Bankok

Íslenska flugvélin lendir á Bankokflugvelli í morgun.
Íslenska flugvélin lendir á Bankokflugvelli í morgun. mbl.is/Sverrir

Flugvél, sem íslensk stjórnvöld sendu til Taílands í gær til þess að sækja þangað sænska ferðamenn sem slösuðust í náttúruhamförunum í Suðaustur-Asíu, lenti á Bankokflugvelli klukkan 13:20 að staðartíma í dag, klukkan 6:20 að íslenskum tíma. Með flugvélinni fóru sex íslenskir læknar og tólf hjúkrunarfræðingar.

Áætlað er að sjúklingar verði 18 á sjúkrabörum og 40-50 aðstandendur og minna slasaðir verði einnig í flugvélinni til Stokkhólms en þangað er áætlað að koma síðdegis á morgun. Sjúklingarnir eru margir alvarlega slasaðir og aðrir með beinbrot, sýkingar, sár og drep. Einnig er eitthvað um hryggjarskaða og iðrasýkingar. Andlegt ástand slasaðra og aðstandenda er mjög slæmt og er sérstök áhersla lögð á að sinna þeim þætti vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert